Laus störf
Laus störf
Tvær stöður doktorsnema í jarðeðlisfræði
Auglýst er eftir umsóknum um tvær stöður doktorsnema í jarðeðlisfræði.
-
Verkefnin eru á eftirfarandi rannsóknarsviðum:
-
(1) mælingar og líkangerð af þróun jökla og jarðskorpuhreyfingum vegna þeirra á Íslandi
-
(2) raunsæ líkangerð af jarðskorpuhreyfingum á eldfjöllum þar sem tekið er tilllit til jarðskorpuhreyfinga vegna jöklabreytinga.
-
Stöðurnar eru hluti af nýja rannsóknarverkefninu ISVOLC sem rannsakar áhrif hörfandi jökla á jarðskjálfta- og eldvirkni, sem styrkt er af Rannsóknarsjóði. Veðurstofa Íslands leiðir verkefnið ásamt Háskóla Íslands, þar sem doktorsnemarnir hafa aðstöðu.
Sjá nánari upplýsingar um verkefnið
Starfssvið
Í ISVOLC verkefninu vinnur alþjóðlegur hópur vísindamanna að því að rannsaka jöklabreytingar, og áhrif þeirra á jarðskorpuhreyfingar, jarðskjálfta og eldvirkni. Áhrifin verða sérstaklega metin í fjórum eldstöðvakerfum, Grímsvötnum, Bárðarbungu, Kötlu og Öskju, og tveimur jarðskjálftasvæðum, Suðurlandsskjálftabeltinu og Tjörnesbrotabeltinu. Verkefnið mun nota ný líkön af jöklabreytingum frá um 1890 og sviðsmyndir fyrir áframhaldandi jöklarýrnun til að meta áhrif jöklabreytinga á jarðskorpuhreyfingar á Íslandi og nýmyndun bergkviku undir landinu. Nú þegar er landris vegna hörfandi jökla ríflega 20 mm/ári á stóru svæði í kringum Vatnajökul og hefur áhrif á allt landið. Líkanreikningar benda til þess að vegna þrýstiléttis myndist aukið magn bergkviku undir landinu. Í verkefninu verða áhrif þessara ferla á jarðskjálfta- og eldvirkni metin, til aukins skilnings á náttúruvá. Svæði sem valin eru í verkefninu eru náttúrulegar rannsóknastofur til að rannsaka áhrif hörfandi jökla á jarðskjálfta- og eldvirkni.
ISVOLC doktorsnemastaða 1: Þróun jökla og jarðskorpuhreyfingar vegna þeirra á Íslandi
Í fyrsta hluta verkefnisins verður búinn til samþættur gagnagrunnur fyrir rúmmálsbreytingar íslenskra jökla síðan að Litlu Ísöldinni lauk með hárri upplausn í tíma og rúmi. Ef tækifæri gefst verður farið lengra aftur í tímann, nokkur hundruð eða þúsundir ára. Stuðst verður við beinar mælingar og fjarkönnunargögn, en einnig ísflæðis- og loftslagslíkön. Annar hluti verkefnisins felst í því að búa til þrívíð, tímaháð líkön af jarðskorpuhreyfingum vegna jöklabreytinga fyrir allt Ísland, með hliðsjón af raunsæum strúktúr fyrir stinnhvolf og möttul. Þriðji hluti verkefnisins felst í því að tengja saman líkönin af jöklabreytingum og jarðskorpuhreyfingum vegna þeirra, til að auka skilning á áhrifum jöklabreytinga á stórum skala. Vinnan felur í sér líkangerð af ísflæði (t.d. með PISM) og veðurfari (bæði staðbundin og hnattræn líkön) til að setja saman sögu jöklabreytinga og notkun COMSOL hugbúnaðarins fyrir jarðskorphreyfingar.
ISVOLC doktorsnemastaða 2: Raunsæ líkangerð af jarðskorpuhreyfingum á eldfjöllum þar sem tekið er tillit til jarðskorpuhreyfinga vegna jöklabreytinga
Doktorsneminn mun rannsaka kvikuhreyfingar og jarðskjálfta á völdum hluta áherslusvæða ISVOLC með eftirfarandi markmið:
- (i) Hanna ný háþróuð þrívíð reiknilíkön með bútaaðferð (e. Finitie Element method) af kvikukerfum undir völdum eldfjöllunum. Tekið verður tillit til mismunandi eininga bráðinnar bergkviku og blöndun hennar með kristöllum í kvikusvæðum undir eldfjöllum, sem og tímaháðrar tilfærslu kviku í rótum eldstöðvakerfa.
- (ii) Tengja líkön af kvikukerfum og jarðskorpuhreyfingum vegna jöklabreytinga og búa til samþætt líkan sem lýsir áhrifum bæði af jöklarýrnun og kvikustreymi.
- (iii) Ákvarða hvaða áhrif jöklarýrnun hefur haft á myndun og streymi bergkviku og stöðugleika grunnstæðra kvikuhólfa.
- (iv) Ákvarða áhrif jöklabreytinga á jarðskjálftavirkni á tveimur meginskjálftasvæðum Íslands.
Vinnan mun fela í sér einn eða fleiri af eftirtöldum verkþáttum: úrvinnslu InSAR og GNSS mælinga á jarðskorpuhreyfingum, og líkanreikninga af jarðskorpuhreyfingum með analítískum og tölulegum aðferðum (COMSOL hugbúnaði).
Báðir doktorsnemarir hafa aðstöðu á Jarðvísindastofnun Háskólans sem er faglega sjálfstæður hluti Raunvísindastofnunar Háskólans. Rannsóknavinnan verður unnin í nánu samstarfi við Veðurstofu Íslands.
Hæfniskröfur
- Meistaragráða í jarðeðlisfræði, jarðfræði, eðlisfræði, eða sambærilegum sviðum.
Nægilegt er að meistaragráðu sé lokið tímanlega til þess að umsækjandi geti sótt um og fengið inngöngu í doktorsnám áður en vinna við verkefnið hefst. - Góð færni í ensku, bæði talaðri og skrifaðri.
- Áhugi á vísindarannsóknum og sköpun nýrrar þekkingar.
- Áreiðanleiki, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum og starfi.
- Hæfni, og áhugi, á að vinna í þverfaglegu og alþjóðlegu rannsóknateymi.
- Fyrri reynsla sem tengist fyrirhuguðum rannsóknum er kostur.
- Góð undirstaða í eðlisfræði, tölulegum aðferðum og forritun (fyrir stöðu 1).
Umsóknarferli
Upphafsdagur starfanna er eigi síðar en 1. september 2023.
Umsóknin skal innihalda:
- i) Kynningarbréf (að hámarki 2 síður), þar sem tilgreint er hvort sótt er um stöðu 1 eða 2, eða báðar.
- ii) Ferilskrá, sem tilgreinir fyrri starfsreynslu, reynslu af hugbúnaði og forritun, og skrá um birt efni og kynningar ef við á.
- iii) Prófskírteini úr háskólanámi (BS, MS og sambærileg) með lista yfir námskeið sem tekin hafa verið og upplýsingar um einkunnir (á íslensku eða ensku) .
- iv) Einnar síðu greinargerð um áhugasvið í rannsóknum.
- v) Upplýsingar um tvo meðmælendur (símanúmer og tölvupóstur) ásamt upplýsingum um tengsl þeirra við umsækjanda.
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum verður tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin.
Umsóknir geta gilt innan Háskólans í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.
Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans
Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands
Háskóli Íslands er gróskumikið þekkingarsamfélag og er fjölbreyttur og lifandi vinnustaður. Akademískt frelsi, fagmennska og jafnrétti eru gildi skólans og er mikið lagt upp úr sveigjanleika og þátttöku starfsmanna í uppbygginu náms og rannsókna við skólann. Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa um 390 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Á sviðinu eru um 2000 nemendur og fjölmargir framhaldsnemar. Verkfræði- og náttúruvísindasvið stærir sig af fjölbreytileika og umbótasinnuðu umhverfi þar sem þekkingaröflun og miðlun er í fyrirrúmi.
Jarðvísindastofnun Háskólans er faglega sjálfstæður hluti Raunvísindastofnunar Háskólans og miðstöð akademískra rannsóknna í jarðvísindum á Íslandi. Stofnunin veitir akademískum starfsmönnum, framhaldsnemum og nýdokturum rannsóknaaðstöðu. Vísindamenn við Jarðvísindastofnun hafa sterkar alþjóðlegar tengingar og skipuleggja og taka þátt í fjölda innlendra og alþjóðlegra rannsóknarverkefna.
Veðurstofa Íslands (VÍ) er opinber stofnun sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Stofnunin er ábyrg fyrir vöktun og rannsóknum á náttúruvá á Íslandi, og gefur út viðvaranir og spár um náttúruvá fyrir samfélagið, þar með talið til almennings og íslenskra og alþjóðlegra stofnanna sem leiða viðbrögð við náttúruvá. VÍ er ráðgefandi fyrir íslenskar almannavarnir og hefur hlutverk sem íslensk eldfjallavöktunarmiðstöð fyrir Alþjóða flugmálastofnunina. VÍ sinnir rannsóknum á jarðskjálftum og eldvirkni og vá tengdri þeim, jöklum, samspili jökla og eldfjalla, veðurfari, vatnafari og áhrifum loftslagsbreytinga. Stofnunin leggur einnig áherslu á samþætta jarðeðlisfræðilega vöktun á ýmsum umhverfisþáttum til að geta betur sagt til um náttúruváratburði.
Umsóknarfrestur
Umsóknarfrestur er til og með 19.05.2023
Nánari upplýsingar veita
Freysteinn Sigmundsson, fs@hi.is
Guðfinna Th Aðalgeirsdóttir, gua@hi.is
Halldór Geirsson, hgeirs@hi.is
Michelle Parks, michelle@vedur.is