Faghópar

Faghópur í jarðefnafræði

Faghópur í jarðefnafræði leitast við að nota efnafræði til að skilja betur myndun og sögu jarðar og alheims, þau lögmál sem stjórna dreifingu efna og efnasambanda í náttúrunni og einnig inngrip manna í náttúrulega dreifingu frumefna.  

Hópurinn vinnur m.a. að rannsóknum á sviði berg- og bergefnafræði til að varpa ljósi á og skilja betur kvikumyndun í iðrum jarðar og hvernig kvikan breytist á leið sinni til yfirborðsins. Einnig er unnið að rannsóknum á efnafræði vatns og gass, efnaskiptum vatns og gufu við berg, jarðveg, andrúmsloft, lífrænt efni og lífverur. Einkum er fengist við efnafræði storkubergs, jarðhitavökva og eldfjallagas, straumvatna og sjávar. Þá eru stundaðar tilraunir með efnaskipti vatns, bergs og lífræns efnis ásamt líkangerð.  

Þekking á jarðefnafræði er sífellt mikilvægari þáttur umhverfisrannsókna, t. d. vegna súrnunar sjávar og efnamengunar frá eldgosum.

Image
""

Faghópur í jarðfræði

Innan faghóps í jarðfræði fara fram fjölþættar rannsóknir á sviði umhverfisbreytinga, fornveðurfars og eldfjallafræði. Viðfang rannsókna á umhverfisbreytingum og fornveðurfari eru m.a. loftslagsbreytingar á Norður-Atlandshafssvæðinu þar sem í öndvegi eru rannsóknir á sjávar- og stöðuvatnaseti, útbreiðslu hafíss, sjávarstöðubreytingum, jöklabreytingum og landmótun jökla.  

Í eldfjallafræðinni beinast rannsóknirnar að eldgosasögu og gosbergsstafla Íslands, einstakra gosbelta og eldstöðvakerfa, gerð og hegðun (þ.e. eðlisfræði) eldgosa, eldgosamengun, veðurfars- og umhverfisáhrif eldgosa ásamt eldfjallavá og forvörnum við henni.  

Image
""