Efnasamsetning bráðar í Sundhnúksgosum 2023-2024
Efnasamsetning bráðar í Sundhnúksgosum 2023-2024
Efnasamsetning basaltglers í hraðkældu hrauni og gjósku frá allri Sundhnúksgígaröðinni er stöðugt greind með örgreini Jarðvísindastofnunar Háskólans. MgO-styrkur glersins er á bilinu 5,6-6,7% af massa, en TiO2-styrkur frá 1,8-2,5% (mynd 1). MgO-styrkurinn er aðeins hærri í gleri hraðkældrar gjósku, en TiO2-styrkurinn heldur lægri. Þetta tengist myndun örkristalla í hrauninu eftir að kvikan kemur upp á yfirborð og áður en hraunsýnin eru snöggkæld í vatnsfötu (mynd 2).

Mynd 1: Efnasamsetning basaltglers í hrauni og gjósku sem komu upp í gosum við Sundhnúk frá desember 2023 og til apríls 2024. Sýnd er eins staðalfráviks skekkjuspönn fyrir styrk MgO, en í tilfelli TiO2 er hún minni en táknið.
Greinilegt er að MgO-styrkur, sem vex eftir því sem kvikuuppruninn er dýpra í jarðskorpunni, breytist ekki marktækt eftir því sem líður á gosið (mynd 1). Það er þrátt fyrir aðstreymi kviku úr geymi sem aflögunargögn gefa til kynna að sé djúpt undir svæðinu. Þetta bendir til þess að kvikan sem streymir upp í kvikugeyminn í miðri jarðskorpunni fyrir neðan Svartsengi nái annaðhvort mjög hratt jafnvægi við þau skilyrði sem ríkja í miðri jarðskorpunni eða valdi því að kvika sem þar er þegar til staðar fari af stað upp til yfirborðs.

Mynd 2: Endurkastsrafeindamyndir af (a) kældu hrauni og (b) gjóskusýni. Hátt hlutfall örkristalla sést vel í hrauninu en örkristallar eru sjaldgæfir í (b) mjög blöðróttri gjóskunni sem storknaði nær samstundis eftir að hún kom upp um gossprunguna.
Alberto Caracciolo tekur hér glóandi hraunsýni. Myndir frá RÚV - Ragnar Visage


