Header Paragraph

Eldgos norðan Grindavíkur, niðurstöður mælinga 14. janúar 2024

Image
Litli-Hrútur 11. júlí 2023
Image
Elgos norðan Grindavíkur 14. janúar 2024 - graf

Upphaf goss og fyrsti dagurinn

Gosið hófst um kl. 7:57 þann 14. janúar.  Þá opnaðist stutt sprunga suðaustan við Hagafell.  Sprungan lengdist til suðvesturs og aðeins til norðausturs  og var orðin rúmlega 1 km kl. 9:15.  Mestur hluti hennar lá norðan varnargarðsins sem verið hefur í byggingu undanfarna daga, en syðsti hlutinn náði í gegnum garðinn.  Hraunrennsli var mest norðan garðsins og leitaði hraunið meðfram honum til suðvesturs.  Hraunið fór yfir Grindavíkurveg og hitalögnina frá Svartsengi eftir hádegið.  Jafnframt opnaðist stutt sprunga rétt norðan byggðar eftir hádegið og hefur hraun þaðan runnið að efstu húsum.  Nokkur hafa brunnið þegar þetta er skrifað á sunnudagskvöldi. 

Mælingar á hraunflæði (14. janúar)

Eftir hádegi flugu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar loftmyndaflug með flugvél Garðaflugs og síðan var farið annað flug seinna um daginn.  Landmælingar hafa nú þegar unnið landlíkan úr fyrra fluginu.  Það sýnir að hraunið var orðið 0,6 km2 að stærð og að meðalhraunflæði fyrstu sex tímana var 136 m3/s og óvissan 15 m3/s.  

Þessar tölur eru sennlega 30-40% af því sem var fyrstu 1-2 klukkustundirnar í gosinu í desember, en miklu hærri en sambærilegar mælingar í gosunum í Fagradalsfjalli 2021, 2022 og 2023. 

Vísbendingar eru um að eitthvað hafi dregið úr þegar leið á daginn, en úrvinnsla mælinganna sem gerðar voru síðdegis í dag auk mælinga sem vonast er til að ná á morgun munu skýra hver þróun hraunflæðisins verður. 

Vonast er til að hægt verði á morgun að sýna, auk þróunar hraunflæðisins, niðurstöður mælinga á gasinnihaldi.
 

Vinna við mælingar og úrvinnslu

Kortlagning hraunsins er samstarfsverkefni margra aðila:  Hér á landi eru það aðallega Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands auk Jarðvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofunnar ásamt Almannavörnum. 

Jarðefnafræðin er einkum unnin á Jarðvísindastofnun Háskólans.  Að gasmælingum koma sérfræðingar Veðurstofunnar og fólk á Jarðvísindastofnun.   

Að vinnunni kemur því allstór hópur sérfræðinga á ofangreindum stofnunum, tæknifólk á tilraunastofum og nýdoktorar við Jarðvísindastofnun