Header Paragraph

Eldgos norðan Grindavíkur, niðurstöður mælinga 14. janúar 2024 - uppfært

Image
Litli-Hrútur 11. júlí 2023
Image
Eldgos norðan Grindavíkur 14. janúar 2024 - Graf

Upphaf goss og fyrsti dagurinn

Gosið hófst um kl. 7:57 þann 14. janúar.  Þá opnaðist stutt sprunga suðaustan við Hagafell.  Sprungan lengdist til suðvesturs og aðeins til norðausturs  og var orðin rúmlega 1 km kl. 9:15.  Mestur hluti hennar lá norðan varnargarðsins sem verið hefur í byggingu undanfarna daga, en syðsti hlutinn náði í gegnum garðinn.  Hraunrennsli var mest norðan garðsins og leitaði hraunið meðfram honum til suðvesturs.  Hraunið fór yfir Grindavíkurveg og hitalögnina frá Svartsengi eftir hádegið.  Jafnframt opnaðist stutt sprunga rétt norðan byggðar eftir hádegið og hefur hraun þaðan runnið að efstu húsum og þrjú þeirra brunnu.  Hraunrennsli á þessari sprungu hætti síðla kvölds.

Mælingar á hraunflæði (14.-15. janúar)

Eftir hádegi sunnudaginn 14. janúar flugu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar tvö loftmyndaflug með flugvél Garðaflugs.  Landmælingar hafa nú þegar unnið landlíkön fyrir bæði flugin.  Þau sýna að hraunið var orðið 0,6 km2 að stærð, meðalhraunflæði fyrstu sex tímana var 115 m3/s (fram til kl. 14:10) og tæplega 30 m3/s milli 14:10 og 16:15 og óvissan 15 m3/s.   

Meðal hraunflæðið fyrstu sex tímana var því nálægt því að vera 1/3 af því sem var fyrstu 2 klukkustundirnar í gosinu í desember, en miklu hærri en sambærilegar mælingar í gosunum í Fagradalsfjalli 2021, 2022 og 2023. 

Mælingarnar sýna að verulegt hraunflæði var fyrstu klukkutímana en síðan dró hratt úr því.  Mælingarnar sem gerðar verða í dag (15. janúar) munu varpa skýrara ljósi á þróunina, en gosið ber öll merki skammvinns goss, eins og varð í desember. 

Vinna við mælingar og úrvinnslu

Kortlagning hraunsins er samstarfsverkefni margra aðila:  Hér á landi eru það aðallega Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands auk Jarðvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofunnar ásamt Almannavörnum. 

Jarðefnafræðin er einkum unnin á Jarðvísindastofnun Háskólans.  Að gasmælingum koma sérfræðingar Veðurstofunnar og fólk á Jarðvísindastofnun.   

Að vinnunni kemur því allstór hópur sérfræðinga á ofangreindum stofnunum, tæknifólk á tilraunastofum og nýdoktorar við Jarðvísindastofnun