Header Paragraph

Eldgos við Litla-Hrút, niðurstöður mælinga 18. júlí

Image
Litli-Hrútur 11. júlí 2023
Image
Litli-Hrútur 18. júlí 2023 - Gröf

19. júlí 2023
Ný gögn komu úr Pleiades gervitunglinu eftir hádegi í gær. 

Mælingar á hraunflæði (18. júlí)

Myndir náðust úr Pleiades gervitunglinu um kl. 13 og Landmælingar Íslands unnu landlíkan úr myndunum.  Mælingarnar sýna meðalhraunrennsli sólarhringinn milli 17.-18. júlí  upp á 8,7 m3/s en óvissa í þeirri tölu er mikil um 5 m3/s. Ástæðan fyrir hárri óvissu er að tímabilið er tiltölulega stutt þannig að rúmmálsbreytingin er ekki mjög stór miðað við óvissu í rúmmáli fyrir og eftir. 

Mælingarnar gerðu einnig mögulegt að mæla rúmmálið á svæði sem var hulið gosmekki daginn áður (17. júlí).  Við þá viðbót var hægt að endurskoða tölurnar fyrir 13.-17. júlí og telst það nú hafa verið 12,1 m3/s.  Þetta er aðeins minna en reiknaðist í gær, þó munurinn teljist ekki marktækur þegar horft er til óvissu. 

Hraunið var orðið 0,92 km2 og rúmmál þess 9,0 milljón rúmmetrar.  Hraunjaðarinn hefur lítið færst fram í Meradölum miðað við daginn áður og hefur vöxturinn verið meira til austurs, ofan Meradala. 

Mælingarnar hingað til benda til hægt minnkandi rennslis með tíma.

Mælingar á efnasamsetningu

Nú er búið að efnagreina sýni frá þremur dögum (10., 13. og 15. júlí).  Engar breytingar hafa orðið á efnasamsetningu hrauns frá því gos hófst við Litla Hrút 10. júlí og hraunið  sem fyrr af svipaðri gerð og hraunið sem var einkennandi fyrir gosið 2021 sem og í ágúst í fyrra. 

Skipulögð sýnataka á vegum Jarðvísindastofunar HÍ mun halda áfram og hraunsýni verða efnagreind reglulega.  

Image
Litli-Hrútur 18. júlí 2023 - Hraunakort
Image
Litli-Hrútur 18. júlí 2023 - Þykktarkort

Aðferðir:

Um kortlagningu hraunsins:

Tvær aðferðir verða einkum notaðar við að kortleggja hraunið:

  1. Myndir teknar lóðrétt niður á hraunið og síðan unnið landlíkan úr myndunum.
  2. Mælingar úr Pléiades gervitungli frönsku geimvísindastofnunarinnar.  Tunglið fer yfir a.m.k. einu sinni á dag en nær ekki myndum ef skýjahula þekur svæðið.

Rúmmál hraunins er fengið með því að draga eitt landlíkan frá öðru. Mælingar eru festar við nýleg nákvæm landlíkön sem unnið hefur verið af öllu landinu.  Nákvæmni landlíkana er talin vera 20-30 cm í hæð. 

Vinna við mælingar og úrvinnslu

Kortlagning hraunsins er samstarfsverkefni margra aðila:  Hér á landi eru það aðallega Náttúrfræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands auk Jarðvísindastofnunar Háskólans.  Einnig koma að verkinu Veðurstofan, Ísavia og Almannavarnir.  Franskt samstarfsfólk kemur líka að málinu því aðgangur að Pléiades gervitunglinu hefur fengist gegnum CIEST2, franskt rannsóknaverkefni.   

Jarðefnafræðin er einkum unnin á Jarðvísindastofnun Háskólans.  Að gasmælingum koma sérfræðingar Veðurstofunnar og fólk á Jarðvísindastofnun.   

Að vinnunni kemur því allstór hópur sérfræðinga á ofangreindum stofnunum, tæknifólk á tilraunastofum og nýdoktorar við Jarðvísindastofnun. 

Jarðefnafræði

Heildarberg-efnagreiningar hafa verið gerðar með ICP-OES (Inductively Coupled Plasma – Optical Emission Spectroscopy ) tæki Jarðvísindastofnunar.  Þær eru gerðar á hraunsýnum teknum með reglulegu millibili. Í þessari aðferð er LiBO2 flúx bætt við mulin bergsýni, bræðslumark þeirra lækkar í kjölfarið og þau því auðbrædd við 1000°C. Bráðin myndar gler við hraða kælingu.  Glerið er leyst upp í sýrublöndu en sú blanda er síðan mæld beint. Þessi aðferð er notuð til að greina öll aðalefni bergsins ásamt nokkrum snefilefnum.

Texti og myndir, úrvinnsla gagna:  Magnús Tumi Guðmundsson, Þórdís Högnadóttir, Sæmundur Ari Halldórsson, Olgeir Sigmarsson, Andri Stefánsson, Samuel Scott, Hannah Reynolds.
Mælingar og gerð landlíkana:  Birgir Vilhelm Óskarsson NÍ, Joaquin Belart LMÍ