Eldgos við Sundhnúksgíga 1. apríl 2025 – Fyrstu bergfræði- og jarðefnafræðigögn
Eldgos við Sundhnúksgíga 1. apríl 2025 – Fyrstu niðurstöður um samsetningu hraunkvikunnar
Hraðkældum hraunsýnum var safnað 1. apríl frá suðurenda gossprungunnar. Sýnin voru undirbúin fyrir smásjárskoðun og efnagreind hjá Jarðvísindastofnun Háskólans. Myndir og gögn sem sýnd eru hér voru fengin með örgreini Jarðvísindastofnunar.
Fyrstu niðurstöður sýna að hraunkvikan hefur svipaða samsetningu og í fyrri gosum við Sundhnúksgíga (mynd 1). MgO-styrkur endurspeglar kólnun og kristöllun kvikunnar, en fyrstu gögn frá þessu gosi sýna að styrkurinn er innan marka fyrri gosa (mynd 1A). Hlutfallið K2O/TiO2 gefur til kynna breytingar á aðstreymi kviku djúpt neðan frá. Þó að þessar fyrstu tölur bendi til smá breytinga miðað við síðustu þrjú eldgos þá eru gildin vel innan þeirra marka sem mælst hafa síðan í desember 2023. Saman leiðir þetta í ljós að engin marktæk breyting hefur orðið í kvikugeyminum undir Svartsengi síðan þessi atburðarás hófst.

Mynd 1. Tímaröð sem sýnir efnasamsetningu basaltglers frá eldgosum við Sundhnúksgíga. Gögnin frá fyrstu fjórum gosunum eru úr grein Matthews o. fl. (2024). Skyggðu svæðin gefa til kynna breytileika sem mælist í sýnum frá Reykjaneseldum sem urðu á miðöldum. Gögnin koma úr grein Caracciolo o. fl. (2023).
Fjöldi kristalla sést í hrauninu (mynd 2). Smærri kristallarnir mynduðust líklega þegar kvikan streymdi hratt upp á yfirborðið, sem er í samræmi við skammvinnan óróa fyrir gos. Stærri kristallarnir mynduðust líklega við langtíma geymslu í kvikugeyminum undir Svartsengi, sem samræmist því að kvika hafi safnast fyrir í marga mánuði.

Mynd 2. Endurkastsrafeindamynd af hraunsýni sem sýnir plagíóklaskristalla (plag; dökkgráir) og ólivínkristalla (olv; milligráir) og basaltgler (ljósgrátt).
Heimildir
Caracciolo, A., Bali, E., Halldórsson, S. A., Guðfinnsson, G. H., Kahl, M., Þórðardóttir, I., Pálmadóttir, G. L., & Silvestri, V. (2023). Magma plumbing architectures and timescales of magmatic processes during historical magmatism on the Reykjanes Peninsula, Iceland. Earth and Planetary Science Letters, 621. https://doi.org/10.1016/j.epsl.2023.118378
Matthews, S. W., Caracciolo, A., Bali, E., Halldórsson, S. A., Sigmarsson, O., Guðfinnsson, G. H., Pedersen, G. B. M., Robin, J. G., Marshall, E. W., Aden, A. A., Gísladóttir, B. Y., Bosq, C., Auclair, D., Merrill, H., Levillayer, N., Low, N., Rúnarsdóttir, R. H., Johnson, S. M., Steinþórsson, S., & Drouin, V. (2024). A dynamic mid-crustal magma domain revealed by the 2023 to 2024 Sundhnúksgígar eruptions in Iceland. Science, 386(6719), 309-314. https://doi.org/10.1126/science.adp8778