
Eldgos við Sundhnúksgíga 1. apríl 2025 – Fyrstu niðurstöður um samsetningu hraunkvikunnar
Hraðkældum hraunsýnum var safnað 1. apríl frá suðurenda gossprungunnar. Sýnin voru undirbúin fyrir smásjárskoðun og efnagreind hjá Jarðvísindastofnun Háskólans. Myndir og gögn sem sýnd eru hér voru fengin með örgreini Jarðvísindastofnunar.
Fyrstu niðurstöður sýna að hraunkvikan hefur svipaða samsetningu og í fyrri gosum við Sundhnúksgíga (mynd 1). MgO-styrkur endurspeglar kólnun og kristöllun kvikunnar, en fyrstu gögn frá þessu gosi sýna að styrkurinn er innan marka fyrri gosa (mynd 1A). Hlutfallið K2O/TiO2 gefur til kynna breytingar á aðstreymi kviku djúpt neðan frá. Þó að þessar fyrstu tölur bendi til smá breytinga miðað við síðustu þrjú eldgos þá eru gildin vel innan þeirra marka sem mælst hafa síðan í desember 2023. Saman leiðir þetta í ljós að engin marktæk breyting hefur orðið í kvikugeyminum undir Svartsengi síðan þessi atburðarás hófst.