Header Paragraph

Eldgos við Sundhnúksgíga í ágúst 2024 – Fyrstu berg- og jarðefnafræðigögn

Image
Þunnsneið_Sundhnúksgígar_ágúst_2024

Eldgos við Sundhnúksgíga í lok maí 2024 – fyrstu berg- og jarðefnafræðigögn

Sýnum af snöggkældu hrauni var safnað á öðrum og þriðja degi gossins sem hófst nærri Sundhnúksgígum 22. ágúst og á fjórða degi náðist sýni af nýfallinni gjósku. Sýnunum var öllum safnað á svæðinu norðan Stóra-Skógfells og basaltglerið var efnagreint með örgreini Jarðvísindastofnunar. Bergfræðilega svipar sýnunum mjög til fyrri sýna úr gosum við Sundhnúksgíga síðan í desember 2023 (sjá fyrri skýrslur) og innihalda blöðrótt gler með plagíóklas-, ólivín- og ágítdílum (mynd 1). Snöggkældu hraunsýnin hafa mikið af örkristöllum en gjóskan er kristallasnauð.

Image
Þunnsneið_Sundhnúksgígar_ágúst_2024

Mynd 1. Endurkastsrafeindamynd af snöggkældu hraunsýni (til vinstri) frá öðrum degi gossins og mjög blöðróttu gjóskusýni (til hægri) frá fjórða degi gossins sem hófst 22. ágúst við Sundhnúksgíga. Í hraunsýninu sjást plagíóklas- og ólivíndílar en plagíóklas- og ágítdílar í gjóskunni.
 

Jarðefnafræðileg einkenni

Styrkur MgO í sýnunum er á bilinu 5-7 % eða svipað og í fyrri gosum við Sundhnúksgíga síðan í desember 2023. Hlutfall K2O/TiO2 í basaltglerinu er 0,11-0,16 sem er mjög líkt því sem var í maí-júní gosinu, en það er mun lægra en í gosum þar á undan þegar það var 0,21-0,23. Af þessu má ráða að kvika með svipaða efnasamsetningu hafi safnast fyrir í kvikugeyminum undir Svartsengi síðan í lok apríl. Nær óbreytt lágt K2O/TiO2 í basalti sem gosið hefur frá lokum apríl til ágúst 2024 gefur ástæðu til að ætla að kvikuframleiðsla og kvikusöfnun djúpt undir skaganum sé að þróast yfir í stöðugra ástand með minni breytileika í samsetningu, líkt og var í Reykjaneseldum fyrr á öldum.