Header Paragraph

Eldgos við Sundhnúksgíga í lok maí 2024 – fyrstu berg- og jarðefnafræðigögn

Image
Endurkastsrafeindamynd af snöggkældu hraunsýni frá maí 2024

Eldgos við Sundhnúksgíga í lok maí 2024 – fyrstu berg- og jarðefnafræðigögn

Sýnum af gjósku og snöggkældu hrauni var safnað norðan Fiskidalsfjalls og austan Sýlingarfells á fyrsta og fjórða degi gossins sem hófst 29. maí við Sundhnúksgíga. Bæði hraunið og gjóskan samanstanda af blöðróttu basaltgleri með plagíóklas-, ólívín- og ágítdílum (Mynd 1). Basaltglerið var efnagreint með örgreini Jarðvísindastofnunar Háskólans. Gjóskuglerið er laust við örkristalla, en snöggkæld hraunsýni innihalda breytilegt magn af þeim. Á heildina litið eru bergfræðieinkenni nýja hraunsins svipuð og í fyrri hraunum sem runnið hafa við Sundhnúksgíga síðan í desember 2023 (sjá fyrri skýrslur).

Image
Endurkastsrafeindamynd af snöggkældu hraunsýni frá maí 2024

Mynd 1. Endurkastsrafeindamynd af snöggkældu hraunsýni frá fjórða degi gossins sem hófst í lok maí við Sundhnúksgíga. Sýnið inniheldur plagíóklas-, ólivín- og ágítdíla.
 

Jarðefnafræðileg einkenni

Styrkur MgO  í glerinu er ~6,2-7,0 %, eða svipaður og úr öðrum gosum við Sundhnúksgíga síðan í desember 2023. Hlutfall K2O/TiO2  glersins er 0,13-0,14 í öllum greindum sýnum frá þessu nýjasta gosi sem er verulega frábrugðið því sem var í fyrri gosum við Sundhnúksgíga, en í þeim gosum var það 0,21-0,23 (mynd 2). Þessi breyting á K2O/TiO2 miðað við fyrri eldgos á svæðinu síðan í desember 2023 bendir til þess að ný og breytt kvika sé að koma upp til yfirborðs við Sundhnúksgíga.

Image
Samanburður á efnasamsetningu basaltglers frá Sundhnúksgíga gosum

Mynd 2. Samanburður á efnasamsetningu basaltglers frá gosinu sem hófst 29. maí 2024 við bráðabirgðagreiningar frá fyrri gosum á svæðinu frá og með desember 2023 og við glergögn frá fyrstu 50 dögum gossins í Geldingadölum 2021 (Sæmundur Ari Halldórsson o.fl. 2022).

Landris hófst í Svartsengi í byrjun apríl (sjá skýrslur Veðurstofu Íslands) meðan á gosinu sem hófst í mars 2024 stóð. Fyrstu jarðefnafræðilegu gögn okkar benda til þess að síðan í aprílbyrjun hafi ný og breytt kvika safnast fyrir undir Svartsengi. Þessi kvika safnaðist að öllum líkindum fyrir í sérstökum kvikugeymi í miðskorpunni sem er aðgreindur frá þeim sem marsgosið átti rætur sínar í. Kvikan sem nú kemur upp við Sundhnúksgíga er með K2O/TiO2-hlutfall sem er líkt og var í kvikunni sem kom upp í upphafi gossins í Geldingadölum 2021. Ein möguleg skýring á þessu er að kvikukerfin tvö séu tengd djúpt niðri í jarðskorpunni. Í fyrsta skipti frá upphafi Geldingadalagossins 2021 er kvika með lágt K2O/TiO2 ríkjandi á gosstöðvum Sundhnúksgíga.

Heimildir:

Sæmundur Ari Halldórsson o.fl. (2022): https://www.nature.com/articles/s41586-022-04981-x