
Eldgos við Sundhnúksgíga í nóvember 2024 – Fyrstu niðurstöður um samsetningu hraunkvikunnar
Hraðkælt hraun sem rann 21. nóvember nálægt Grindavíkurvegi var tekið til efnagreiningar. Örgreinir Jarðvísindastofnunar var notaður til ákvörðunar á samsetningu á gleri hraunsins. Fyrstu niðurstöður sýna að hin hraðkælda hraunbráð (gler) er af mjög líkri samsetningu og sú kvika sem gaus í síðustu tveimur atburðum, þ. e. í maí-júní og ágúst-september gosunum. Styrkur MgO glersins er 5-6 % og K2O/TiO2 hlutfallið á bilinu 0.13 - 0.14. Samsetningin er einnig lík þeirri hraunkviku sem rann í Reykjaneseldum á miðöldum.
Niðurstöðurnar benda til kvikusöfunar á svipuðu dýpi (og svipað hitastig; mynd 1A) undir Svartsengi og í fyrri gosum þessa árs. Einsleit samsetning basaltkvikunnar síðustu sex mánuðina (sama K2O/TiO2 hlutfall; mynd 1B) staðfestir litlar breytingar á aðfærslu kviku frá meira dýpi. Því má ætla að svipuð atburðarás haldi áfram meðan djúpstæð kvika leitar ofar í skorpuna.