Header Paragraph

Eldgos við Sundhnúksgíga í nóvember 2024 – Fyrstu niðurstöður um samsetningu hraunkvikunnar

Image
Þunnsneið_Sundhnúksgígar_ágúst_2024

Eldgos við Sundhnúksgíga í nóvember 2024 – Fyrstu niðurstöður um samsetningu hraunkvikunnar 

Hraðkælt hraun sem rann 21. nóvember nálægt Grindavíkurvegi var tekið til efnagreiningar. Örgreinir Jarðvísindastofnunar var notaður til ákvörðunar á samsetningu á gleri hraunsins. Fyrstu niðurstöður sýna að hin hraðkælda hraunbráð (gler) er af mjög líkri samsetningu og sú kvika sem gaus í síðustu tveimur atburðum, þ. e. í maí-júní og ágúst-september gosunum. Styrkur MgO glersins er 5-6 % og K2O/TiO2 hlutfallið á bilinu 0.13 - 0.14. Samsetningin er einnig lík þeirri hraunkviku sem rann í Reykjaneseldum á miðöldum. 

Niðurstöðurnar benda til kvikusöfunar á svipuðu dýpi (og svipað hitastig; mynd 1A) undir Svartsengi og í fyrri gosum þessa árs. Einsleit samsetning basaltkvikunnar síðustu sex mánuðina (sama K2O/TiO2 hlutfall; mynd 1B) staðfestir litlar breytingar á aðfærslu kviku frá meira dýpi. Því má ætla að svipuð atburðarás haldi áfram meðan djúpstæð kvika leitar ofar í skorpuna. 

Image
Breyting á glersamsetningu hrauns í Sundhnúksgígum - graf

Mynd 1: Breytinga á glersamsetningu hrauns frá Sundhnúksgígum. Niðurstöður fyrir fyrstu fjögur gosin eru úr grein Matthews o. fl. (2024). Skyggða svæðið sýnir samsetningu glers í hraunum Reykjaneselda frá Caracciolo o.fl. (2024). 

Heimildir: 

Caracciolo, A., Bali, E., Halldórsson, S. A., Guðfinnsson, G. H., Kahl, M., Þórðardóttir, I., Pálmadóttir, G. L., & Silvestri, V. (2023). Magma plumbing architectures and timescales of magmatic processes during historical magmatism on the Reykjanes Peninsula, Iceland. Earth and Planetary Science Letters, 621. https://doi.org/10.1016/j.epsl.2023.118378  

Matthews, S. W., Caracciolo, A., Bali, E., Halldorsson, S. A., Sigmarsson, O., Guðfinnsson, G. H., Pedersen, G. B. M., Robin, J. G., Marshall, E. W., Aden, A. A., Gisladottir, B. Y., Bosq, C., Auclair, D., Merrill, H., Levillayer, N., Low, N., Runarsdottir, R. H., Johnson, S. M., Steinþorsson, S., & Drouin, V. (2024). A dynamic mid-crustal magma domain revealed by the 2023 to 2024 Sundhnuksgigar eruptions in Iceland. Science, 386(6719), 309-314. https://doi.org/10.1126/science.adp8778