Samkvæmt hraðamælingum í GPS-stöð á Dyngjujökli sem Jarðvísindastofnun HÍ rekur nærri jafnvægislínu hans virðist framhlaup hafið. Dyngjujökul í norðanverðum Vatnajökli er framhlaupsjökull en að jafnaði líða 20–30 ár milli framhlaupa. Síðasta framhlaup jökulsins stóð yfir frá 1998 til 2000 en þá höfðu rösk 20 ár liðið frá framhlaupi. Frá 1992 hafa stikur verið settar út á Dyngjujökli og hreyfing stikna og leysing við þær mæld að hausti. Hraði á stikum nærri jafnvægislínu fyrir síðasta framhlaup jókst rólega frá ári til árs úr 60 m á ári til 80 m á ári þar til sumarið 1998 þegar hraðinn rauk upp í 140 m á ári við upphaf framhlaups (sjá mynd að neðan). Frá 1999 til 2004 var Dyngjujökull það sprunginn vegna framhlaupsins að ekki var hægt að koma út stikum nærri jafnvægislínu hans. Mælingar 2005–2015 sýndu hreyfingu á þeim slóðum nærri 50 m á ári en frá 2015 til 2024 jókst hraðinn hægt og bítandi í um 80 m ári. GPS-stöð sem komið var fyrir í vor sýnir að hraðinn hefur hrokkið upp og hefur frá því í júlíbyrjun verið um 150 m á ári að jafnaði, þ.e. örlítið hærri en mældist sumarið 1998. Framhlaup virðist því hafið í Dyngjujökli. Vert er að vara við ferðum á Dyngjujölki. Líklega hafa nú þegar myndast sprungur á svæðum sem hafa verið greiðfær og ósprungin síðastliðin 20 ár.
Finnur Pálsson og Eyjólfur Magnússon, 12. nóvember 2025