Gjálp 1996

Myndir frá Gjálpargosinu (30.9.–13.10. 1996). Myndirnar sýna gosmökk rísa upp úr sigkatli frá tíunda gosdegi (hægri) og jökulhlaup úr Grímsvötnum þar sem hlaupvatn rennur fram undan jaðri Skeiðarárjökuls eftir að ísstífla brast í Grímsvötnum (vinstri).

Gjálpargosið (30.9. – 13.10.1996) varð í Vatnajökli milli Grímsvatna og Bárðarbungu, á nánast sama stað og gaus árið 1938. Jökullinn á þessu svæði er mjög þykkur, 600-750 metrar.  Gosið hófst að kvöldi 30. september. Daginn eftir, þegar hægt var að fljúga yfir, bentu sigkatlarnir til þess að það gysi á 4 km langri gossprungu. Hún lengdist síðan til norðurs og varð 6 km löng. Gosið bræddi sig í gegnum jökulinn á 31 klukkustund þar sem ísinn var 600 metra þykkur. Sá gígur var virkur allt til loka gossins þann 13. okt. Gosið var þó að langmestu leyti undir jökli og er talið að aðeins 2% gosefna hafi náð upp úr jöklinum og fallið sem gjóska. Meðan á gosinu stóð bræddi það um 3 rúmkílómetra af ís og rann bræðsluvatnið niður til Grímsvatna. Bráðnun á gosstað var veruleg í nokkrar vikur eftir að gosinu lauk. Eftir fimm vikna uppsöfnun vatns í Grímsvötnum brast ísstíflan og mikið jökulhlaup flæddi yfir verulegan hluta Skeiðarársands, eyddi m.a. brúnni yfir Gígjukvísl og stórskemmdi brúna yfir Skeiðará.

Gosið myndaði móbergshrygg undir jöklinum, sem er allt að 500 metra hár. Rúmmál hans er talið vera um 0,7 rúmkílómetrar auk þess sem um 0,1 rúmkílómetri barst með hlaupvatni og settist til á botninum í vesturhluta Grímsvatna. Rúmmál gosefnanna samsvarar um 0,45 rúmkílómetrum af föstu bergi og er gosið talið það fjórða stærsta hér á landi á 20. öld (magn gosefna var meira í gosinu í Surtsey 1963-67, Kötlu 1918 og Heklu 1947). Talið er að kvikuhlaup frá Bárðarbungu hafi valdið gosinu, en gjóskan sem kom upp (basaltískt andesít) hefur samt einkenni Grímsvatna. Sennilegast er að gangainnskot frá Bárðarbungu hafi stungist inn í leif af kviku sem setið hafði í jarðskorpunni síðan í gosinu 1938.

EPOS Íslands
Share