Header Paragraph

Gosið í Fagradalsfjalli og samanburður við önnur nýleg gos

Image
""
Image
Samanburdur á nýlegum gosum

Sem betur fer eru ekki öll eldgos jafnstór og Holuhraun, sem varð til á sex mánaða tímabili 2014-2015.  Hér setjum við fram samanburð á nýlegum hraungosum hér á landi síðasta aldarfjórðunginn.  Á meðfylgjandi korti hafa hraunin sem urðu til í gosunum í Heklu árið 2000, Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli 2010 og Holuhrauni verið lögð ofan á kort af Reykjanesskaga.  Hraunið sem myndast hefur undanfarið er sýnt með rauðum lit og er það eina sem sett niður er á réttan stað á kortinu.

Eins og sjá má hefur gosið við Fagradalsfjall, mánuði eftir að það hófst, myndað hraun sem er svipað að stærð og umfangi og hraunin sem runnu á Fimmvörðuhálsi og í Gígjökli í Eyjafjallajökli 2010.  Hraunin úr Heklu árið 2000 eru miklu stærri enda að hluta í bröttum hlíðum þar sem þau eru mjög þunn.  Öll eru hraunin þó lítil miðað við Holuhraun.   Þessi gos hafa verið rannsökuð ítarlega af vísindafólki við Jarðvísindastofnun enda eru eldfjallarannsóknir undir hatti Norræna Eldfjallasetursins eitt helsta áherslusviðið innan stofnunarinnar.  Mikil samvinna er um þessar rannsóknir við bæði innlenda og erlenda aðila.  Hér að neðan er vísað í greinarnar sem tölurnar og útlínur hraunanna eru fengnar úr. 

Vegna nálægðar gossins í Fagradalsfjalli við byggð á suðvesturhorninu er lögð áhersla á að meta stærð, þróun og hraunrennsli eins vel og kostur er og uppfæra mælingar reglulega.  Þegar þetta er skrifað, 20. apríl, hefur endurtekin kortlagning á hrauninu nýst til að rekja  hvernig útbreiðsla þess og rúmmál hefur þróast ásamt mati á hraunrennsli á hverjum tíma.  Niðurstöðurnar eru hér:  http://jardvis.hi.is/eldgos_i_fagradalsfjalli

 

Heimildir

Ben Edwards, E. Magnússon, T. Thordarson, M. T. Guđmundsson, A. Höskuldsson, B. Oddsson, J. Haklar, 2012. Interactions between lava and snow/ice during the 2010 Fimmvörðuháls eruption, south-central Iceland. Journal of Geophysical Research, Vol 117, B04302.

Björn Oddsson, M. T. Guđmundsson, Ben Edwards, T. Thordarson, 2016. Subglacial lava propagation, ice melting and heat transfer during emplacement of an intermediate lava flow in the 2010 Eyjafjallajökull eruption. Bulletin of Volcanology, 78-48.

Gro B.M. Pedersen, A. Höskuldsson, T. Dürig, T. Thordarson, I. Jonsdottir, M.S. Riishus, B.V. Óskarsson, S. Dumont, E. Magnússon, M.T. Gudmundsson, F. Sigmundsson, V.J.P.B. Drouin, C. Gallagher, R. Askew, J. Gudnason, W. Moreland, P. Nikkola, H.I. Reynolds, J. Schmith, 2017. Lava field evolution and emplacement dynamics of the 2014-2015 Holuhraun eruption, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research. Volume 340, pages 155-169.

Gro B.M. Pedersen,  J.M.C. Belart, E. Magnússon, O.K. Vilmundardóttir, F. Kizel, F.S. Sigurmundsson, G. Gísladóttir, J.A. Benediktsson, 2018. Hekla Volcano, Iceland, in the 20th Century: Lava Volumes, Production Rates, and Effusion Rates. Geophysical Research Letters. Volume 45, Issue 4, pages 1805-1813.

 

Fagradalsfjall - samstarfshópur um stærðarmat á gosi:

  • Náttúrufræðistofnun: Loftmyndataka, gerð landlíkana, túlkun:  Birgir V. Óskarsson, Nild Gies
  • Landmælingar Íslands:  Gerð landlíkana, gervitunglagögn, túlkun:  Joaquin M. Belart, Guðrmundur Þór Valsson
  • Jarðvísindastofnun Háskólans:  Gerð landlíkana, gervitunglagögn, aðrar flugmælingar, túlkun:  Ásta Rut Hjartardóttir, Gro Birkefeldt Möller Pedersen, Hannah I. Reynolds,  Magnús Tumi Guðmundsson, Tobias Dürig, Þórdís Högnadóttir