Grímsvötn 1998

Myndir frá Grímsvatnagosinu 1998 (18.–27.12.). Gosmökkur rís upp úr gígnum á fyrsta gosdegi og nær um 10 km hæð (hægri). Aðalgígurinn í Grímsvötnum á sjötta gosdegi, 23. desember, með sprengivirkni og nýfallnum snjó yfir gjóskulagi (vinstri).

Gosið í Grímsvötnum (18.-27.12. 1998) ásamt Gjálpargosinu tveimur árum fyrr, markaði upphaf nýs tímabils mikillar gosvirkni í Vatnajökli eftir tæplega 60 ára kyrrð. Á tímabilinu 1938-1996 varð aðeins eitt smágos, í Grímsvötnum 1983. Gosið 1998 varð á um 1,3 km langri gossprungu á suðurjaðri Grímsvatnaöskjunnar, undir Vestari Svíahnjúk. Ís var þunnur á þessu svæði, 30-150 metrar. Gosið fór því nánast beint í gegnum ísinn og myndaði um 10 km háan gosmökk. Hann lækkaði verulega eftir fyrsta gosdag. Gosið stóð í 11 daga. Mestur hluti gosefna var gjóska sem féll á Vatnajökul, verulegur hluti í og við Grímsvötn. Gosið var ekki stórt, rúmmál gosefna í heild er talið hafa verið samsvarað nokkuð undir 0,1 rúmkílómetra af föstu bergi. Ekkert hlaup varð samhliða gosinu, en tiltölulega lítið hlaup varð nokkrum vikum eftir að því lauk.

Headerlogo
Share