Þetta Grímsvatnagos (1.-6.11. 2004) hófst að kvöldi 1. nóvember og varð í suðvesturhorni Grímsvatnaöskjunnar, 2-3 km vestar en gosið 1998. Þar var jökullinn 150-200 m þykkur. Talið er að gosið hafi brætt sig í gegnum ísinn á tæplega hálftíma. Mökkurinn reis í 10-11 km hæð. Gosið bræddi ílangan ketil í jökulinn með lóðréttum ísveggjum. Lengd hans var 750 m (austur-vestur) og breidd 550 m (norður-suður). Gosið stóð í sex daga, en meginfasinn stóð í rúmlega 30 klukkustundir, 1.-2. nóvember. Jökulhlaup úr Grímsvötnum hafði byrjað nokkrum dögum fyrir gosið og íshellan sigið um 15 metra þegar það hófst. Segja má að þessir atburðarás hafi staðfest þá kenningu sem Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur setti fram 1953, um að jökulhlaupin frá Grímsvötnum gætu hleypt af stað eldgosum (t.d. 1922 og 1934 og nokkrum sinnum á 19. öld). Skýrist þessi atburðarás af því að þegar eldstöðin hefur þanist út vegna aðstreymis kviku inn í grunnstætt kvikuhólf, valdi lækkun í fargi samfara hratt lækkandi vatnhæð í jökulhlaupum því, að eldgos fer af stað. Gosið 2004 var töluvert minna en gosið 1998, heildarmagn gosefna samsvaraði um 0,02 rúmkílómetrum af föstu bergi.