Myndir frá Heklugosinu árið 2000. Myndirnar sýna nýrunnið hraun á suðausturhlíðum Heklu skömmu eftir upphaf gossins 1. mars 2000 (vinstri) og hraunflæðið sex vikum síðar, 13. apríl 2000, þar sem þunnt snjólag hylur hluta hraunsins (hægri).
Gosið (26.2.-8.3.2000) var hið fjórða í röðinni af tíðum Heklugosum, sem urðu á um 10 ára fresti á tímabilinu 1970-2000). Gosið hófst upp úr kl. 18 sunnudaginn 26. mars. Gosmökkur reis hratt upp í um 12 km hæð en fór svo lækkandi og var sprengigosinu að mestu lokið eftir nokkra klukkutíma. Samhliða sprengigosinu rann hraun frá gígunum. Gossprungan eftir hrygg fjallsins náði 6,6 km lengd en styttist fljótt og lengst af var virkni í tveimur gígum. Gjóskufallið nam um 10 milljón rúmmetrum, um helmingur þess sem kom upp í Heklugosinu 1991, aðeins um 15-20% af gjóskumagninu 1970 og 1980 og óverulegt miða við gosið 1947. Eftir fyrstu klukkutímana lauk sprengivirkni að mestu og flæðigos var ráðandi eftir það. Hraunið sem myndaðist var 14,5 km2 að stærð, að mestu sunnan og austan við Heklu. Gosefnin voru basaltískt andesít. Þetta Heklugos er eitt það minnsta sem vitað er um. Heildarmagn gosefna var um 0,1 rúmkílómetri, að langmestu leyti hraun.
Nánari upplýsingar um eldgos í Heklu/eldstöðvakerfi Heklu er að finna á Íslensku eldfjallavefsjánni: https://islenskeldfjoll.is/?volcano=HEK#