Alþjóðlega jöklarannsóknafélagið hefur gert Helga Björnsson, jöklafræðing og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, að heiðursfélaga í samtökunum fyrir ævistarf sitt við jöklarannsóknir. Alþjóðlega jöklarannsóknafélagið er samstarfsvettvangur jöklafræðinga um heim allan og þar starfa flestir íslenskir jöklafræðingar sem m.a. vinna við Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands.
Helgi fær þessa viðurkenningu fyrir brautryðjandi rannsóknir á mörgum sviðum jöklavísinda, þar á meðal rannsóknir á afkomu jökla, jöklavatnafræði og jökulhlaupum, íssjármælingar, og rannsóknir á eldvirkni undir jöklum og á áhrifum loftslagsbreytinga á jökla. Viðurkenningin er einnig veitt fyrir ritstörf til þess að kynna niðurstöður þessara rannsókna fyrir almenningi en þar ber hæst bókina Jöklar á Íslandi sem út kom árið 2009 og hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin sama ár.
Helgi Björnsson, jöklafræðingur, tekur við heiðursfélaganafnbót Alþjóðlega jöklarannsóknafélagsins frá Gwenn Flowers, formanni, og Magnúsi Má Magnússyni, aðalritara félagsins, á Hellissandi þann 31. október 2024.
Helgi var heiðraður af þessu tilefni þann 31. október á ráðstefnu norrænna jöklafræðinga sem fram fór í félagsheimilinu Röst á Hellissandi 30. október til 1. nóvember á vegum Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskólans.