
Vísindamenn við Háskóla Íslands eru meðal þeirra sem koma að nýju evrópsku rannsóknaverkefni, ICELINK, sem miðar að því að varpa nýju ljósi á áhrif loftslagsbreytinga á hopun jökla á Norður-Atlantshafssvæðinu. Verkefnið hefur hlotið yfir milljarð króna í styrk frá Evrópusambandinu. Hlutverk vísindamanna skólans verður m.a. að safna gögnum um ísflæði og hreyfingu jökla og miðla niðurstöðum rannsóknanna á hopun jökla með myndrænum hætti til almennings og stefnumótenda.
Augu þjóða heims beinast í síauknum mæli að stöðu jökla í heiminum og til að mynda hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst yfirstandandi ár Alþjóðaár jökla. Methiti á undanförnum áratugum hefur valdið mikilli hörfun jökla og ísbreiða á Íslandi og Grænlandi. Hópur evrópskra rannsóknastofnana hefur einsett sér að ákvarða hve hröð og mikil þessi rýrnun er og verður í framtíðinni, áhrif þessarar hörfunar á staðbundið loftslag og vistkerfi og hvað samfélögin á þessu svæði geta gert til að aðlagast.
Vísindamenn frá 11 stofnunum í 7 löndum víðs vegar um Evrópu munu samþætta niðurstöður háþróaðra loftslags- og ísflæðilíkana við afkomumælingar og gervihnattagögn til að auka skilning okkar á áhrifum loftslagsbreytinga á jöklana á Norður-Atlantshafssvæðinu. Þetta er flókið, þverfaglegt viðfangsefni sem þarfnast alþjóðlegs samstarfs til að ná árangri.