Holuhraun 2014

Myndir frá Holuhraunsgosinu 2014–2015. Myndirnar sýna gíga og hraunflæði á gossvæðinu í Holuhrauni 4. desember 2014, þar sem gasmökkur stígur upp frá virkri gígaröð (vinstri), og gosmekk rísa yfir hraunbreiðunni 8. desember 2014 (hægri).

Holuhraunsgosið hófst 31. ágúst 2014 og því lauk um sex mánuðum síðar, í lok febrúar 2015.  Mikil jarðskjálftavirkni hófst í Bárðarbungu að morgni 16. ágúst. Kvika fór að streyma undan bungunni til norðausturs. Var það upphafið að miklum gliðnunaratburði á svæði sem náði allt frá Bárðarbungu að Dyngjufjöllum. Hægt var að rekja framrás kvikugangs í jarðskorpunni yfir 16 daga tímabil þar sem gliðnun nam um tveimur metrum. Gosið var stórt frá upphafi og myndaði mikið hraun, Holuhraun, en flatarmál þess náði 84 km2 í febrúar 2015. Mikil skjálftavirkni var samhliða gosinu í Bárðarbungu, enda kom í ljós þann 5. september að öskjusig var hafið í Bárðarbunga, og nam þá um 14 metrum þar sem það var mest. Talið er að öskjusigið hafi hafist um eða upp úr 20. ágúst. Það stóð í um sex mánuði en smám saman dró úr hraða þess, þar til það stöðvaðist alveg í lok febrúar. Það náði 65 metrum þar sem mest var í norðausturhluta öskjunnar. Kvikan sem upp kom í Holuhrauni var basísk. Sprengivirkni var sáralítil og gjóskufall nánast ekkert. Mikið kom upp af gasi með gosinu. Vöktunarkerfi gasmæla var komið upp víða um land í byrjun september og þurfi nokkrum sinnum að stöðva útivinnu vegna gasmengunar á ýmsum stöðum.

Gosið í Holuhrauni er það stærsta sem komið hefur á Íslandi síðan í Skaftáreldum 1783-84. Öskjusigið nam tæpum 2 rúmkílómetrum og samsvarar það því magni af kviku sem flæddi lárétt í jarðskorpunni undan Bárðarbungu því rúmlega hálfa ári sem atburðirnir stóðu (seinni hluti ágúst 2014 - lok febrúar 2015). Gangurinn sem myndaðist er tæplega 50 km langur og um 2 m breiður, að mestu undir Dyngjujökli. Rúmmál hans er talið um 0,5 rúmkílómetrar. Rúmmál hraunsins er 1,4-1,5 rúmkílómetrar. Holuhraunsgosið er merkilegur atburður því hann var sá fyrsti þar sem hægt var að fylgjast samhliða með stærð gossins, vexti hraunsins og sigi öskjunnar. 

Nánari upplýsingar um eldgos í Bárðabungu/elstöðvakerfi Bárðarbungu er að finna á Íslensku eldfjallavefsjánni: https://islenskeldfjoll.is/?volcano=BAR

EPOS Íslands
Share