Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands 2024.

Verðlaunin, sem hétu áður Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands, voru nú veitt í 26. sinn. Frá upphafi hafa verðlaunin verið hluti af stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi en mikilvægt er að styðja við nýsköpun þar sem hún getur falið í sér gríðarleg verðmæti og haft jákvæð áhrif á íslenskt hagkerfi. Samkeppnin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Árnason|Faktor og Auðnu-tæknitorgs og verðlaunaafhendingin er hluti af nýsköpunarvikunni Iceland Innovation Week 2024.

Nærri 40 tillögur bárust í samkeppnina að þessu sinni og veitt voru verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun auk þess sem sigurvegari keppninnar í heild var valinn úr hópi verðlaunahafa úr ofangreindum flokkum. Við mat á umsóknum tók dómnefndin einkum mið af nýnæmi og frumleika, útfærslu, samfélagslegum áhrifum, meðal annars út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og skoðaði hvort verkefnin væru í samræmi við stefnu skólans og styddu við starfsemi hans.

Hvatningarverðlaunin í ár að upphæð 500 þúsund krónur hlaut verkefnið „Hraðvirk sprungugreining með drónasegulmælingu“. Að baki verkefninu standa Sindri Bernholt, BS-nemi í jarðeðlisfræði, Elisa Johanna Piispa, fræðimaður við Jarðvísindastofnun, og Catherine Rachael Gallagher, nýdoktor við sömu stofnun.

Stórar sprungur og jarðföll hafa myndast í jarðhræringum á Reykjanesskaga að undanförnu og skapað mikla hættu fyrir fólk á svæðinu, sérstaklega í Grindavík. Þetta kallar á nýjar aðferðir til hraðvirkrar og öruggrar sprungugreiningar og í þessu verkefni er það gert með segulmælingum með dróna í bland við aðrar mæliaðferðir og fyrirliggjandi þekkingu. Verkefnið bætir aðferðir við hættumat sprungna, bæði á áhrifasvæði þeirra jarðhræringa sem nú standa yfir en einnig á svæðum þar sem vænta má svipaðra umbrota í framtíðinni. Það var mat dómnefndar að verkefnið hefði mikil tækifæri til framþróunar og væri sérstaklega viðeigandi í ljósi nýlegra atburða. Það byði einnig upp á tækifæri fyrir áframhaldandi rannsóknir, félli vel að stefnu og starfi skólans ásamt því að bjóða upp á marga kosti til samstarfs við aðila á markaði.

Image

Sindri Bernholt tekur við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar.