Header Paragraph

Jarðeldar við Sundhnúksgíga í febrúar 2024 - Bergfræðileg og jarðefnafræðileg einkenni

Image
Eldgos í Sundhnúksgígum febrúar 2024 - þunnsneið

Sýni voru tekin af gjósku sem fannst suðaustur af syðstu gígunum við Sundhnúk og af hrauni nærri Grindavíkurvegi. Fyrstu bergfræði- og jarðefnafræðigagna var aflað 9. febrúar og er fjallað um þau hér. Myndir og glerefnasamsetningar fengust með örgreini.

Bergfræðileg einkenni

Í hrauninu og gjóskunni er fjöldi stærri og minni ólivín- og plagíóklasdíla (mynd 1). Smáir klínópýroxen- og Cr-spínilkristallar sjást einnig en eru sjaldgæfari. Hraunið inniheldur fjölda örkristalla, mestmegnis plagíóklas, sem gefur til kynna afgösum og kælingu meðan hraunið rann (mynd 1B).

Image
Eldgos í Sundhnúksgígum febrúar 2024 - þunnsneið

Mynd 1. Endurkastsrafeindamyndir sem sýna bergfræðileg einkenni sýna sem safnað var af hrauni (A) og gjósku (B) úr febrúargosinu í Sundhnúksgígum. Mynd A sýnir örkristallaðan grunnmassa hraunsins og mynd B sýnir glerkenndan grunnmassa gjóskunnar ásamt dílum.

 

Jarðefnafræðileg einkenni

Efnasamsetning hraunsins er mjög lík því sem var í tveimur fyrri gosum við Sundhnúksgíga í desember og janúar og er dæmigerð fyrir sprungugos á Íslandi. Hlutfallið K2O/TiO2, sem ræðst af uppruna í möttli, er um 0,22 eða það sama innan óvissu og í kviku sem kom upp í desember og janúar. MgO-styrkur er á bilinu 5,7 % af massa í öðru hraunsýninu og 6,6% í gjóskunni, sem er í samræmi við að hlutkristöllun hafi átt sér stað meðan hraunið rann frá gossprungunni.

 

Samantekt

· Hraunkvikan sem gaus í febrúar hefur mjög svipaða efnasamsetningu og sú sem kom upp í tveimur fyrri gosum við Sundhnúksgíga, sem gefur til kynna að kvikan hafi í öllum tilfellum komið úr sama kvikugeymi.

· Hraunin í öllum þremur gosum við Sundhnúksgíga eru þróaðri (lægri styrkur MgO) en kvikan sem kom upp í Fagradalsfjalli. Þetta samræmist kvikugeymi í miðri jarðskorpunni, sem styður að þenslu við Svartsengi megi rekja til þessa kvikugeymis.

· Breytileika í MgO-styrk glers í mismunandi sýnum má rekja til kristöllunar vegna afgösunar og kólnunar kviku á og nærri yfirborði.