Jarðskorpuhreyfingar á Reykjanesskaga
Þegar jarðskjálftar eiga sér stað verður varanleg breyting á lögun jarðskorpunnar, til viðbótar þeim hristingi sem fólk finnur. Jarðvísindastofnun, ásamt samstarfsaðilum, beitir meðal annars GPS tækni til að mæla þessar jarðskorpuhreyfingar og bera þær saman við einfölduð líkön til að skilja betur hvað er að gerast í jörðinni.
Símælandi GPS stöðvar á Reykjanesskaganum sýna greinilega færslur (bláar örvar á korti) sem nema nokkrum sentímetrum vegna jarðskjálftanna sem urðu 24. febrúar 2021 (sjá einnig tímaraðir GPS mælinga: https://notendur.hi.is/~hgeirs/iceland_gps/rnes/rnes_100p.html og http://brunnur.vedur.is/gps/thorbjorn.html.
Meginskjálftinn (5.7 að stærð og varð kl. 10:05) var sniðgengisskjálfti, líklega á hægri handar sniðgengi, skv. Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna (https://earthquake.usgs.gov/earthquakes/eventpage/us6000dkmk/executive).
Þessi stefna og stærð skjálftans er áþekk því sem var 20. október 2020, en upptök þess skjálfta voru um 3 km austan við skjálftann 24. febrúar. Skjálftar af þessari tegund valda einkennandi jarðskorpuhreyfingum, með stærstu færslunum nálægt misgenginu sjálfu og til átta mynda um 45° horn á stefnu misgengisins (svartar örvar á korti, reiknaðar út frá líkani).
Samanburður mælinga og líkans leiðir í ljós ákveðið samræmi (t.d. stefnur hreyfinga sunnan við Þorbjörn; stefna færslu sunnan Kleifarvatns), en einnig áhugavert misræmi milli mælinga og líkans. Það er greinilegt misræmi við Svartsengi (stöð SENG), þar sem stöðin hefur færst til norðvesturs í stað norðurs eða norðausturs eins og búast mætti við. Þetta misræmi bendir til þess að umtalsverðar jarðskorpuhreyfingar hafi einnig verið á öðrum misgengjum, t.a.m. nærri Svartsengi, eins og ljóst má vera af þeirri jarðskjálftavirkni sem átti sér stað í kjölfar meginskjálftans. Klukkan 19 þann 25. febrúar mun Sentinel gervitungl Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) taka radarmynd af Reykjanesskaga sem nota má til að skilja betur þær færslur sem áttu sér stað í umbrotahrinunni.
GPS mælingar á jarðskorpuhreyfingum á Reykjanesskaga eru gerðar í samstarfi Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands, HS-Orku, Jarðvísindastofnunar Nýja-Sjálands og ÍSOR.

Láréttar færslur símælandi GPS stöðva á Reykjanesskaga (bláar örvar) milli 23. og 24. febrúar 2021 ásamt líkanreikningum (svartar örvar). Rauðir hringir sýna yfirfarnar staðsetningar jarðskjálfta 24. og 25. febrúar frá Veðurstofu Íslands. Hvít stjarna sýnir upptök meginskjálftans sem varð kl. 10:05 þann 24. febrúar. Grænir hringir sýna staðsetningar GPS mælipunkta, mælitæki eru eingöngu staðsett varanlega þar sem bláar örvar sjást á korti. (Mynd: Halldór Geirsson, Jarðvísindastofnun).