Header Paragraph

Lítill munur á efnasamsetningu gjósku- og hraunsýna úr Meradölum á milli ára

Image
Eldgos við Sundhnúksgíga aðfararnótt 19. desember 2023

Gjósku- og hraunsýnum var safnað reglulega meðan á gosinu í ágúst 2022 í Meradölum stóð.

Gjósku- og hraunsýnum var safnað reglulega meðan á gosinu í ágúst 2022 í Meradölum stóð. Mynd 1 sýnir dæmigerðar rafeindasmásjármyndir af sýnum af (A) gjósku, hraunrima sem (B) var snöggkældur með vatni, (C) kólnaði náttúrulega og (D) hægkólnandi helluhrauni. Sýnunum var safnað milli 3. og 5. ágúst, en þau innihalda stærri díla, smádíla og örkristalla af plagíóklasi, ólivíni og klínópýroxeni, raðað eftir minnkandi magni. Cr-ríkur spínill finnst sem innlyksa í ólivíni og sem sérstæður díll. Bergfræðileg ásýnd sýnanna er mjög svipuð sýnum frá gosinu 2021 og lítill munur er á efnasamsetningu steinda.

Styrkur MgO í gleri er almennt 7-8 % af massa, meðan styrkur bergsýna er um 8.5 % MgO (mynd 2). Neikvæð fylgni milli TiO2 og MgO samræmist hlutkristöllun þeirra steinda sem finnast í berginu. Gler frá seinni stigum gossins er almennt frumstæðara en frá byrjun gossins. Hlutfall K2O/TiO2 var stöðugt meðan á gosinu stóð og svipað því sem mældist í lok gossins á árinu 2021 eða um 0,25-0,26.

Gjóskan er tiltölulega afgösuð með styrk SO2 á bilinu 100-400 ppm. Glerinnlyksur í ólivínkristöllum með sambærilegan MgO-styrk og gjóskuglerið hafa hærri styrk SO2, almennt á bilinu 2000-2300 ppm, sem ætla má að sé styrkur þess í kvikunni áður en afgösun brennisteins hefst. Styrkur SO2 var nokkuð stöðugur meðan á gosinu stóð og svipaður því sem mældist í gosinu árið 2021. Með því að nota upplýsingar um hæsta styrk SO2 sem mældist í innlyksum og lægsta styrk í gjóskugleri er hægt að áætla hámarksmagn SO2 sem losnaði í gosinu eða allt að 6 x 10**7 kg af SO2.

Þrýstimælir sem byggir á jafnvægi ólivíns, plagíóklass, ágíts og bráðar gefur til kynna að steindirnar hafi í byrjun komið efst úr kvikuganginum. Þegar leið á gosið komu kristallarnir af vaxandi dýpi (nærri mörkum skorpu og möttuls á degi 8). Þrýstimælir jafnvægis klínópýroxens og bráðar sýnir að smádílar klínópýroxens kristölluðust á dýptarbili sem nær yfir hæð gangsins, en stórdílar ferðuðust frá djúpt í jarðskorpunni til yfirborðs. Reiknað hitastig kvikunnar var 1190-1200 °C allan gostímann. Það er mjög svipað hitastig og fékkst í gosinu árið 2021.

 

Mynd 1. Rafeindasmásjármyndir af (A) gjósku og (B-D) hraunsýnum sem safnað var dagana 3.-5. ágúst 2022. Þessar myndir eru dæmigerðar fyrir sýni sem safnað var allan gostímann.
Mynd 1. Rafeindasmásjármyndir af (A) gjósku og (B-D) hraunsýnum sem safnað var dagana 3.-5. ágúst 2022. Þessar myndir eru dæmigerðar fyrir sýni sem safnað var allan gostímann.
Mynd 2. Breytileiki í efnasamsetningu glers og bergsýna frá öllu Meradalagosinu árið 2022.
Mynd 2. Breytileiki í efnasamsetningu glers og bergsýna frá öllu Meradalagosinu árið 2022.