
Losun SO2 and HCl í Sundhnúksgosinu í mars til maí 2024
Gjóskusýnum var safnað hjá gígaröðinni við Sundhnúk skömmu eftir að gos hófst 17. mars síðastliðinn. Brennisteins- og klórstyrkur glerinnlyksna og grunnmassaglers í þessum sýnum (mynd 1) var mældur með örgreini Jarðvísindastofnunar Háskólans. Glerinnlyksurnar, sem hafa samsetningu þeirrar kvikubráðar sem kristallarnir uxu úr og lokuðu inni, varðveita S- og Cl-styrk kvikunnar áður en SO2 og HCl losna úr henni við gos. Hæsti S-styrkur í innlyksunum nær 1600 ppm, en meðal S-styrkur í grunnmassagleri er ekki nema 250 ppm. Klórstyrkur innlyksnanna og grunnmassaglers er mjög svipaður, eða 240±40 ppm. Munurinn á efnainnihaldi innlyksna og grunnmassaglers gefur upplýsingar um losun rokgjarna efna frá gígaröðinni, en hægt er að áætla hversu mikil losun rokgjarnra efna var frá hrauninu við storknun þess með því að gera ráð fyrir fullkominni afgösun. Þessi gildi, ásamt mælingum á hraunflæði, gera kleift að reikna út breytingar á losun SO2 og HCl meðan á gosinu stóð.