Nýjar og nákvæmari spár vísindamanna um rýrnun jökla í heiminum geta orðið hvatning til mannkyns um að grípa skjótar og með meira afgerandi hætti til aðgerða í loftslagsmálum og bjarga þannig fjölda jökla frá rýrnun. Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein sem Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði við Háskóla Íslands, og Timothy D. James, vísindamaður við Queen’s University í Kanada, rita í nýjasta hefti hins virta vísindatímarits Science. 

Greinin er nokkurs konar viðbragð (e. Scientific Perspective) við grein fjölþjóðlegs hóps vísindamanna sem birtist í sama hefti Science og ber yfirskriftina „Global glacier change in the 21st century: Every increase in temperature matters“. Þar birta vísindamennirnir viðamestu spá um áhrif hlýnandi loftslags á rýrnun jökla í heiminum sem gerð hefur verið. Dregnar eru upp mismunandi sviðsmyndir út frá mismunandi spám um hækkun hitastigs í heiminum fram til ársins 2100 en undanskyldar í rannsókninni eru ísbreiðurnar á Grænlandi og Suðurskautslandinu. 

Bráðnun jökla hefur alvarlegar afleiðingar fyrir mörg samfélög

Samkvæmt rannsókninni, sem nær til yfir 200 þúsund landlægra jökla, verða um tveir þriðju þeirra horfnir árið 2100 miðað við núverandi horfur, en útlit er fyrir að meðalhiti í heiminum verði þá 2,7 gráðum hærri en hann var fyrir iðnbyltingu. Vísindamennirnir benda enn fremur á að þrátt fyrir að mannkyn nái því markmiði sem sett er fram í Parísarsáttmálanum, að halda hitastigshækkun við 1,5 gráður, muni helmingur jökla heimsins verða horfinn árið 2100.

Í grein sinni í Science benda Guðfinna og Timothy á að þrátt fyrir að landlægir jöklar séu tiltölulega litlir í samanburði við ísbreiðurnar á Grænlandi og Suðurskautslandinu séu þeir engu að síður gríðarlega mikilvægir. Bráðnun landlægra jökla hafi haft jafn mikil áhrif á hækkun sjávarborðs og bráðnun ísbreiðanna á síðustu áratugum og þá muni aðgengi samfélaga víða um heim að vatni skerðast með fækkun jökla. Auk þess hafi rýrnun jökla í för með sér aukna hættu á flóðum, aurskriðum og berghlaupum.  

Námkvæmasta líkan um áhrif loftslagshlýnunar á jökla hingað til

Guðfinna og Timothy undirstrika enn fremur að miklar framfarir hafi orðið í vöktun jökla á undanförnum árum með notkun gervihnattatækni en það gefi vísindamönnum skýrari mynd af fjölda og stærð jökla og þeim breytingum sem eru að verða á hraða bráðnunar og rúmmáli jöklanna. Spálíkön um áhrif loftslagsbreytinga á afkomu jökla séu tiltölulega ný af nálinni en hafi þróast frá fremur einföldum spám um breytingu á rúmmáli yfir í flóknari líkön þar sem tekið sé tilliti til ýmissa hreyfifræðilegra þátta, eins og flæði og kelfingu jökla. 

Texti

Guðfinna og Timothy segja niðurstöður hins fjölþjóðlega hóps vísindamanna undirstrika að bregðast þurfi strax við til að koma í veg fyrir umtalsverða rýrnun jökla. Þjóðir heims hafi ekki enn gripið til nægilega afgerandi aðgerða til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og það virðist sem ákveðin pattstaða sé í málaflokknum. Ástæður þess séu flóknar en hugsanlega þurfi þeir sem koma að honum, þar á meðal vísindamenn, að breyta málflutningi sínum til að afla betri stuðnings við aðgerðir hjá almenningi.

Mynd
Image

Þrátt fyrir ýmsar framfarir á þessu sviði á undanförnum árum hafi í spálíkönum hingað til ekki verið tekið tilliti til nokkurra lykilþátta sem stjórna massatapi jökla. Í grein hins fjölþjóðlega hóps vísindamanna í Science séu hins vegar tekin umtalsverð skref í átt að nákvæmari spálíkönum um afkomu jökla fram til ársins 2100. „Þrátt fyrir að enn sé hægt að gera betur með nákvæmara mati á þykkt jökla og skýrari spám um loftslagsaðstæður er líkanið það yfirgripsmesta sem gert hefur verið,“ segja þau Guðfinna og Timothy um líkan fjölþjóðlega hópsins. 

Guðfinna og Timothy taka dæmi af Sólheimajökli og benda á að frá árinu 1890 hafi jökullinn hopað um tvo kílómetra en samkvæmt þessari nýju spá muni hann hopa um aðra 8 km fram til næstu aldamóta.

Merki um hamfarahlýnun aldrei skýrari

Þau benda enn fremur á að með því að setja gögnin úr rannsókninni í samhengi þeirrar stefnu sem þjóðir heims hafa mótað í loftslagsmálum á öldinni og raunverulegrar stöðu mála sé útlitið ekki bjart. Jafnvel þótt mannkynið nái bjartsýnustu markmiðum um að halda hækkun meðalhita á jörðinni innan við 1,5 gráður frá því fyrir iðnbyltingu bendi rannsóknin til að nærri 60% af landlægum jöklum heimsins verði engu að síður horfin árið 2100. Þá verði jafnframt að hafa í huga að þótt mannkyni takist að takmarka hækkun hitastigs í heiminum muni þeir samt halda áfram að minnka eftir árið 2100. „Þegar þessar spár bætast við spár um minnkandi sumarhafís á norðurslóðum, aukna bráðnun ísbreiðanna á Grænlandi og á Suðurskautslandinu, hækkandi sjávarborð og ógnvekjandi tap á líffræðilegum fjölbreytileika þá hafa merkin um hamfarahlýnun aldrei verið skýrari,“ segja þau Guðfinna og Timothy í grein sinni. 

Guðfinna og Timothy segja niðurstöður hins fjölþjóðlega hóps vísindamanna undirstrika að bregðast þurfi strax við til að koma í veg fyrir umtalsverða rýrnun jökla. Þjóðir heims hafi ekki enn gripið til nægilega afgerandi aðgerða til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og það virðist sem ákveðin pattstaða sé í málaflokknum. Ástæður þess séu flóknar en hugsanlega þurfi þeir sem koma að honum, þar á meðal vísindamenn, að breyta málflutningi sínum til að afla betri stuðnings við aðgerðir hjá almenningi. Þar megi leggja áherslu á ávinninginn af skýrum aðgerðum fremur en afleiðingarnar af aðgerðaleysi. „Þrátt fyrir að það sé of seint að bjarga mörgum jöklum er enn hægt að hafa áhrif á þann fjölda sem tapast með því að því að vinna gegn hækkun meðalhita í heiminum,“ benda þau Guðfinnu og Timothy í grein sinni í Science.

Greinina í heild sinni má nálgast á vef Scicence

Image
Guðfinna Th Aðalgeirsdóttir

Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði, er annar höfunda greinar sem birtist í hinu virta vísindatímariti Science í upphafi árs. MYND/Kristinn Ingvarsson