Header Paragraph

Minnisblað um ástand Heklu - 2. nóvember 2021

Image

Í síðustu viku fór leiðangur frá Jarðvísindastofnun Háskólans austur að Næfurholti á Rangárvöllum til að mæla hallabreytingar við Heklu. Hallamælingastöðin við Næfurholt er hluti af mælineti sem Eysteinn Tryggvason setti upp umhverfis Heklu 1970 í því skyni að fylgjast með þrýstingsbreytingum í kvikukerfinu undir eldstöðinni. Eysteinn var einn af frumkvöðlum heimsins í beitingu landmælinga til að segja til um ástand virkra eldstöðva. Hann lést á Húsavík fyrr á þessu ári í hárri elli. Mælistöðin við Næfurholt hefur reynst sérlega vel til að fylgjast með þrýstingsbreytingum undir Heklu. Síðustu áratugina hafa mælingar verið gerðar einu sinni til tvisvar á ári. Þær sýna hvernig jarðskorpan umhverfis eldstöðina rís jafnt og þétt milli gosa en sígur síðan tiltölulega hratt meðan á gosi stendur, sjá meðfylgjandi línurit. Landrisið og -sigið endurspegla þrýstinginn í kvikukerfinu sem fóðrar gosin. Kvika safnast fyrir undir eldstöðinni milli gosa en leitar til yfirborðsins þegar ákveðnum þrýstingi er náð. Upptök þrýstingsbreytinganna virðist vera á 10-15 km dýpi undir fjallinu. Svipuð hegðun er þekkt í mörgum eldfjöllum. Oftast þarf þrýstingur undir eldstöðinni að ná svolítið upp fyrir það sem hann var fyrir síðasta gos. Þetta mátti sjá fyrir gosið í Heklu árið 2000. Þá fór þrýstingur að mörkunum sem voru fyrir gosið 1991 áður en gos hófst og land seig. Land tók að rísa aftur eftir gosið og var þessum þrýstingsmörkum náð aftur árið 2006 og hefði þá að öllu óbreyttu mátt búast við nýju gosi. Af því hefur þó ekki orðið enn, og virðist þrýstingur undir eldstöðinni þess í stað hafa vaxið vel umfram það sem þarf til að gos geti hafist.

Image

Mælingarnar í síðustu viku staðfesta þessar fyrri niðurstöður. Tvær ályktanir er hægt að draga af mælingunum:

1. Þrýstingur undir Heklu hefur farið sívaxandi síðan í síðasta gosi.

2. Þrýstingur er núna hærri en hann var fyrir að minsta kosti tvö síðustu gos.

Ekki er hægt að ákvarða nánar um tímasetningu næsta goss í Heklu út frá þessum mælingum. Reynsla frá síðustu gosum í Heklu sýnir að mælanlegur aðdragandi gosa í Heklu er stuttur, 23 – 79 mínútur. Þetta er umtalsvert styttri tími en í öðrum eldstöðvum á Íslandi. Í ljósi vaxandi ferðamennsku er því rétt að ítreka að erfitt er að tryggja að unnt verði að gefa út viðvörun um yfirvofandi gos í Heklu. Upphafsfasi Heklugosa er oftast mjög öflugur og fylgir honum öskufall. Nýleg slys á eldfjöllum í Nýja-Sjálandi og Japan sýna að ferðamennsku við virk eldfjöll fylgir umtalsverð áhætta, sérstaklega ef viðvörunartími er stuttur.

Þá er einnig rétt að minna á að flugumferð milli landa fer nú vaxandi eftir lægð heimsfaraldursins. Núverandi leiðsögukerfi millilandaflugs beinir flugumferð beint yfir topp Heklu. Ekki færri en þrjár flugvélar flugu þessa leið meðan á mælingunni við Næfurholt stóð.

Ásta Rut Hjartardóttir var leiðangursstjóri í mælingunum nú, en auk hennar tóku þátt Páll Einarsson og Halldór Ólafsson, eftirlaunamenn, fjórir nemar í HÍ í jarðeðlisfræði, Arney Ósk Guðlaugsdóttir, Áslaug Gyða Birgisdóttir, Eva Björk Sverrisdóttir, Katrín Ásta Karlsdóttir, og nemi frá Spáni  í starfsþjálfun, Iván Medina. Auk þeirra var með í för Ingibjörg Briem. Erik Sturkell við Háskólann í Gautaborg reiknaði út úr mælingunum.

 

Páll Einarsson, Ásta Rut Hjartardóttir og Erik Sturkell

Texti

Ásta Rut Hjartardóttir var leiðangursstjóri í mælingunum nú, en auk hennar tóku þátt Páll Einarsson og Halldór Ólafsson, eftirlaunamenn, fjórir nemar í HÍ í jarðeðlisfræði, Arney Ósk Guðlaugsdóttir, Áslaug Gyða Birgisdóttir, Eva Björk Sverrisdóttir, Katrín Ásta Karlsdóttir, og nemi frá Spáni  í starfsþjálfun, Iván Medina. Auk þeirra var með í för Ingibjörg Briem. Erik Sturkell við Háskólann í Gautaborg reiknaði út úr mælingunum.

Mynd
Image

Texti

Mælingarnar eru gerðar með hallamælitæki sem ákvarðar hæðarmun milli punkta á löngum línum mælipunkta sem negldir eru í Þjórsárhraunið norðan Næfurholts.

Mynd
Image