Mýrdalsjökull - Eftirlit með sigkötlum

Katla og Mýrdalsjökull

Mýrdalsjökull liggur syðst íslenskra jökla og er tæplega 600 km2 að flatarmáli.  Hann þekur efri hluta Kötlueldstöðarinnar en hún er mikið dyngjulaga fjall, um 30 km í þvermál sem rís í tæplega 1500 metra hæð.  Í miðju eldstöðvarinnar er Kötluaskjan, 100 km2 að stærð, aflöng með stefnu NV-SA.  Nokkrar bungur og tindar eru á brúnum öskjunnar, Goðabunga, Háubunga, Austmannsbunga, Enta og Entukollar og Kötlukollar.  Innan öskjubarmana er ísinn mörg hundruð metra þykkur.

Vitað er um 20 gos í Kötlu og nágrenni hennar á sögulegum tíma.  Þessi gos hafa flest verið í austur- eða miðhluta öskjunnar, á vatnasvæði Kötlujökuls.   Kötlugosið 1918 varð í suðausturhluta öskjunnar, 3-4 km norðan Háubungu (á því svæði þar sem katlar 9, 16,17 og 18 eru á kortunum).

Jarðvísindastofnun hefur í samstarfi við Isvia og Veðurstofuna haldið uppi skipulegu eftirliti með sigkötlum í Mýrdalsjökli frá árinu 1999.

Image

Sumir katlanna hafa verið nánast eins allt frá 1999, t.d. margir katlanna í vesturhluta öskjunnar.  Aðrir hafa breyst verulega, t.d. bar lítið á katli 16 þar til hann hljóp úr honum árið 2011.  Sumir sýna greinileg merki þess að vatn safnast undir þeim yfir veturinn meðan aðrir virðast leka stöðugt.  Hægt er að lesa nánar um mælingarnar hér (pdf skjal)

Eftirlit með sigkötlum

Eitt af hlutverkum Jarðvísindastofnunar Háskólans í vöktun Mýrdalsjökuls er að fylgjast með yfirborði jökulsins vegna hættu á uppsöfnun vatns undir kötlum og hugsanlegum jökulhlaupum.  Í því skyni er gerðar radarhæðarmælingar úr flugvél Isavia (TF-FMS).  Farið er yfir jökulinn á nokkurra mánaða fresti og flognar 9-17 fyrirfram ákveðnar mælilínur í hverri ferð.  Þannig er fylgst með lögun allra sigkatlanna sem þekktir eru innan öskjunnar.  Einnig flýgur Reynir Ragnarsson fyrrverandi lögreglumaður í Vík, reglulega yfir svæðið í lítilli flugvél og fylgist með breytingum.

Image

Radarhæðarmælingar úr flugvél

Nýjustu mælingar - breytingar á jarðhita
Niðurstöður úr 3 síðustu mælingum og ferð 17. desember 1999 eru á meðfylgjandi myndum.  Yfirborðshæðin lækkar um 4-10 m frá vori til hausts vegna leysingar en hækkar aftur yfir veturinn vegna snjósöfnunar.  Fyrir utan hina árstíðabundnu sveiflu má greina þrjú tímabil í mælingunum.  Frá haustinu 1999 fram á mitt ár 2001 grynnkaði ketill 7 en að öðru leiti voru breytingar litlar.  Frá miðju ári 2001 fram á árið 2004 dýpkuðu nokkrir sigkatlanna vegna aukins jarðhita.  Þessi þróun hélst í hendur við landris og aukna skjálftavirkni (www.vedur.is) og tengist líklega aukinni kvikusöfnun undir kötluöskjunni. Eftir 2004 dró úr jarðhita á ný þar til í júlí 2011. Skyndileg aukin jarðhitavirkni í suðuausturhluta öskjunnar kom af stað hlaupi í Múlakvísl 9. júlí. Auk augsýnilegra merkja um dýpkun katla 16 og 9 sýna mælingar einnig dýpkun í kötlum 8 og 10.  Eftir 2011 hafa orðið nokkrar breytingar en þó ekki stórvægilegar.  Ketill 11 dýpkaði aftur eftir að hafa nánast horfið á árunum 2008-2011 og ketill 16 hefur grynnst.  Nýir, litlir katlar hafa skotið upp kollinum.  Ketill 18 sást fyrst 2011 og ketill 20 nokkrum árum síðar.

Image
Image
Image
Image

Umsjón með síðu:
Þórdís Högnadóttir, disah@hi.is
Magnús Tumi Guðmundsson