Samkvæmt rannsókn,sem birt er í dag í vísindaritinu Nature, hafa jöklar jarðar, að frátöldum stóru ísbreiðunum á Grænlandi og Suðurskautslandinu, að meðaltali rýrnað um 273 milljarða tonna af ís árlega frá síðustu aldamótum. Rýrnunin samsvarar 273 rúmkílómetrum vatns.

Rannsóknin sýnir að þessi þróun herðir jafnt og þétt á sér, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, þannig að árleg rýrnun síðustu tíu árin er mun hraðari en árlega rýrnunin á fyrsta áratug aldarinnar. Rýrnunin er mismunandi eftir svæðum, frá um 2% fyrir jökla í grennd við Suðurskautslandið upp í 39% fyrir jökla í Mið-Evrópu. Jöklar utan stóru heimskautaísbreiðanna rýrna samtals um 18% hraðar en Grænlandsjökull og um tvöfalt hraðar en Suðurskautsjökullinn og áhrif þeirra á sjávarstöðu eru sem því nemur mikilvægari en framlag stóru heimskautajöklanna.

Image

Lesa má stutta samantekt á íslensku um helstu niðurstöður Glambie verkefnisins í frétt á vef Veðurstofu íslands. https://www.vedur.is/um-vi/frettir/ny-rannsokn-synir-ad-ryrnun-jokla-a-jordinni-herdir-a-ser

Hér má lesa greinina í heild: Community estimate of global glacier mass changes from 2000 to 2023, Nature, 2025. https://doi.org/10.1038/s41586-024-08545-z

Stutt myndband um verkefnið má finna á heimasíðu ESA.  https://www.esa.int/esatv/Videos/2025/02/Revealed_glacier_ice_loss_over_two_decades