Ný skýrsla um rannsóknir á sögulegum eldgosum við Öræfajökul
Nýlega var kynnt ný skýrsla um rannsóknir á sögulegum eldgosum við Öræfajökul: Eldgos í Öræfajökli árið 1362, greining á röð atburða.
Höfundar eru: Ármann Höskuldsson, Þorvaldur Þórðarson, Ingibjörg Jónsdóttir, Muhammad Aufaristama, Alma Gytha Huntington Williams, Helga Kristín Torfadóttir, Þóra Björg Andrésardóttir, Daníel Þórhallsson, Alan Woodland, Maria Janebo, Catherine R. Gallagher
Þessi greinargerð fjallar um gosið í Öræfajökli árið 1362 og þær upplýsingar sem hægt er að draga fram með rannsókn á gjóskulaginu sem það myndaði. Fyrri hluti rannsókna á vegum GOSVÁR fólst í því að skoða menjar jökulhlaupa á undirlendi framan við Öræfajökul og tengsl þeirra við eldgosin árið 1362 og árið 1727 og drógu fram mikilvægi jökulhlaupa sem tengjast eldgosum í bröttum eldfjöllum með jökulhettu eins og Öræfajökull. Stór sprengigos, eins og það sem átti sér stað í Öræfajökli árið 1362 eru sjaldnast einföld. Rannsóknir, sem einkum hafa verið fjármagnaðar af Kvískerjasjóð, hafa dregið fram tilvist umfangsmikilla gjóskuflóða samfara gosinu. Ummerki þessara gjóskuflóða er að finna á Sléttubjörgum og hafa þau runnið fram farveg Stígár. Þegar ráðist er í þetta verkefni er ljóst að gjóskuflóðin og gusthlaup þeim samfara myndast mjög snemma í eldgosinu og því hugsanlega mesta hættan tengdu svipuðu eldgosi í framtíðinni. Stjórn GOSVÁR ákvað því að ráðast í umfangsmiklar rannsóknir á röð atburða og mat á dreifingu gosefna með tilliti til innri jarðlagaskipan gjóskulagsins. Við þessa rannsókn var notast við jarðsjá, sem gerir okkur kleift að mæla jarðlagasnið sem eru 200 til 300 m löng. Lagskipting greind með jarðsjá er síðan staðfest með jarðvegsniðum með skurðgröfu. Niðurstaða þessarar rannsóknar er að gjóskuflóðin og gusthlaupin voru fyrstu flóð sem mynduðust í eldgosinu jafnframt er sýnt fram á að megin hluti jökulhlaupanna kemur niður eftir að megin sprengifasi eldgossins er liðinn, en eitt slíkt hlaup kom niður um miðbik fasans. Þar sem gjóskuflóðin og gusthlaupin eru í upphafi eldgosins, þá er brýnt að aðlaga áhættugreiningu og rýmingaráætlanir í samræmi við það.
