Titill
Ný yfirlitsbók um jöklajarðfræði Evrópu

Texti

Út er komin bókin European Glacial Landscapes hjá forlaginu Elsevier. Bókin er yfirlitsbók um jöklajarðfræði Evrópu og skiptist í þrjú bindi;
Maximum Extent of Glaciations (hámark jöklunar), The Last Deglaciation (síðasta afjöklun) og The Holocene (nútími).
Fjallað er um jarðfræðileg ummerki jökla og þá sögu jökla- og umhverfisbreytinga sem þau vitna til um í Evrópu og á aðliggjandi svæðum í austri frá upphafi síðasta jökulskeiðs fyrir um 116 þúsund árum að hámarki þess fyrir um 29-19 þúsund árum, frá síðjökultíma fyrir um 19-11,7 þúsund árum, og frá núverandi hlýskeiði, nútíma, sem einkennst hefur af mildu loftslagi og tiltölulega lítilli útbreiðslu jökla í Evrópu síðustu 11.700 ár.

Bókin er skrifuð á ensku og ætluð skóla- og fræðasamfélagi jafnt sem almenningi. Umfjöllun bókarinnar er skipt upp eftir tímabilum og landsvæðum auk þess að vera ríkulega skreytt kortum, skýringarmyndum og ljósmyndum.

Í hverju bindi eru sérstakir kaflar um Ísland sem sérfræðingar frá Jarðvísindastofnun Háskólans og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa skrifað. Kaflarnir fjalla um jöklajarðfræði og jöklunarsögu landsins frá síðasta jökulskeiði til dagsins í dag. Kaflarnir eru heildstæð og ítarleg samantekt byggð á núverandi þekkingu um landmótun og sögu jökla á Íslandi.

Höfundar kaflanna um Ísland eru Ívar Örn Benediktsson (JH), Skafti Brynjólfsson (NÍ), Lovísa Ásbjörnsdóttir (NÍ) og Wesley Farnsworth (JH).

Hægt er að fá rafræna útgáfu einstakra kafla sem fjalla um Ísland hjá höfundum.

Mynd hér til hægri er yfirlitsmynd úr kafla 55 sem sýnir ummerki jökla á landgrunninu umhverfis Ísland.

Mynd
Image
Yfirlitsmynd úr kafla 55 yfir ummerki jökla á landgrunninu umhverfis Ísland.