Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum 18. janúar 2024.
Sérstaka viðurkenningu hlaut verkefnið "Rauntíma sjávarfalla- og sjávarhæðarspá við Ísland"
Markverð sjávarflóð við strendur Íslands gerast nokkrum sinnum á áratug. Óveðurflóð eru í raun tíðari en þetta, því til þess að stormar valdi tjóni þarf óveðrið yfirleitt að ná hámarki nærri háflæði. Þetta þýðir að til þess að spá fyrir um sjávarflóð þarf bæði að geta spáð sjávarföllum og einnig að spá því hvernig sjávarstaða bregst við lágþrýstingi og vindum.
Til að reikna tölfræði veðurflóða umhverfis Ísland var reiknilíkanið Delft3D-FM sett upp á Veðurstofu Íslands með þéttu reiknineti sem nær umhverfis Ísland. Í þessu verkefni var uppsetningin aðlöguð svo nota mætti líkanið til að spá fyrir um sjávarföll og þróun sjávarhæðar. Líkanið reiknar hinar s.n. ólínulegu grunnvatnsjöfnur í mjög þéttu reiknineti (minnst um 200 m möskvastærð) umhverfis landið og gögn eru vistuð á 10 mín fresti. Aðlögunin var fólgin í því að bæta hermun sjávarfalla með því nýta jaðarskilyrði frá Kópernikus þjónustunni (CMEMS). Þar er veitt aðgengi að sjávarfallaspá fyrir Norður Atlantshafið sem reiknuð er í grófu reiknineti, en með háupplausnarlíkaninu var hægt að nýta þessar upplýsingar til að reikna sjávarhæðina í mun meiri upplausn.
Líkanið var notað til þess að reikna sjávarhæð fyrir nokkur tímabil á síðustu árum til að bera saman við aðgengilegar mælingar frá Siglingasviði Vegagerðarinnar. Síðan var reiknuð spá fyrir hluta ágústmánaðar 2023 byggt á CMEMS gögnunum og veðurspá frá Reiknimiðstöð evrópskra veðurstofa (ECMWF). Niðurstöður lofa góðu fyrir þróun á spálíkani sem spáir sjávarstöðu og hægt verður að nota til að spá fyrir sjávarflóðum á sama hátt og nú er spáð fyrir óveðrum.
Verkefnið var unnið af Rakel Maríu Ellingsen Óttarsdóttur, nema í hagnýttri stærðfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur voru Halldór Björnsson, Veðurstofu Íslands, Angel Ruiz Angulo, prófessor á verkfræði- og náttúruvísindasviði HÍ og Fannar Gíslason, Vegagerðinni.
Rakel María Ellingsen Óttarsdóttir, nemi í hagnýtri stærðfræði við Háskóla Íslands, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. MYND/Arnaldur Halldórsson