Header Paragraph

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, hlýtur hin þekktu sænsku Rossby-verðlaun í jarðeðlisfræði.

Image
Páll Einarsson

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, hlýtur hin þekktu sænsku Rossby-verðlaun í jarðeðlisfræði. Verðlaunin eru veitt á nokkurra ára fresti en með þeim er viðurkennt framlag Páls í þágu vísindanna annars vegar og hins vegar það frumkvæði sem hann hefur sýnt við að efla skilning okkar á jarðeðlisfræði og mikilvægi hennar fyrir samfélög og almenning. Þá eru verðlaunin jafnframt viðurkenning fyrir þann einstaka samstarfsanda sem Páll hefur jafnan sýnt á rannsóknaferli sínum. 

Páll er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þessi merku verðlaun en þau voru fyrst veitt árið 1966. Sænska jarðeðlisfræðifélagið stóð lengi að verðlaunum sem veitt voru til minningar um sænska veðurfræðinginn Carl-Gustaf Rossby. Frá árinu 2010 hefur landsnefnd Svía á sviði jarðeðlisfræði afhent verðlaunin en nefndin heyrir undir Konunglegu sænsku vísindaakademíuna.

Verðlaun fyrir frumkvöðlarannsóknir, kennslu og vísindamiðlun

Páll Einarsson er einn af virtustu jarðvísindamönnum landsins og einnig með þeim afkastameiri þegar kemur að rannsóknum. Í umsögn akademíunnar segir að Páll hljóti Rossby-verðlaunin fyrir framlag sitt til að auka skilning manna á jarðeðlisfræðilegum fyrirbærum sem tengjast annars vegar jarðskjálftafræði og hins vegar jarðfræði. 

„Með brautryðjendarannsóknum á ferlum sem eiga sér stað á flekaskilunum á Íslandi og í Norður-Atlantshafi hefur Páll Einarsson ekki aðeins aukið þekkingu okkar heldur einnig veitt næstu kynslóð jarðvísindamanna innblástur með faglegri umsjón með nemendum bæði í grunnnámi og doktorsnámi“

Það er afar ánægjulegt að Páll sé verðlaunaður á sviði kennslu því hann á að baki afar langan og farsælan kennsluferil í Háskóla Íslands. Þar hefur hann kennt námskeið í eðlisfræði, almennri jarðeðlisfræði, jarðskjálftafræði, eldfjallafræði og tektóník (jarðflekafræðum). Síðustu tvo áratugina hefur stór hluti kennslunnar verið í námskeiðum fyrir erlenda nema sem koma til Háskóla Íslands í eitt til tvö kennslumisseri. Einnig hefur hann leiðbeint mörgum nemendum í framhaldsnámi, bæði meistara- og doktorsnemum.
 
Í umsögn um verðlaunin kemur jafnframt fram að hreinskilni Páls við túlkun á vísindalegum gögnum, ásamt því helga sig miðlun þekkingar, hafi bætt getu samfélagsins við að leggja mat á jarðskjálfta- og eldfjallavá. Þetta sé brýnt svo unnt sé að taka vel rökstuddar ákvarðanir varðandi jarðskjálftaviðvaranir og rýmingar.

Páll Einarsson er í hópi þekktustu jarðvísindamanna landsins enda gríðarlega vinsæll viðmælandi fjölmiðlafólks þegar kemur að því að túlka óróa sem tengjast eldsumbrotum og jarðskjálftum. Að viðurkenna störf Páls á þessu sviði miðlunar er því afar ánægjulegt. Þetta er samt ekki í fyrsta sinn sem Páll fær viðurkenningu fyrir að miðla þekkingu til samfélagsins. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2015 fyrir fræðslu og rannsóknir á sviði íslenskra jarðvísinda. Þá hlaut hann norrænu jarðvísindaverðlaunin árið 2018 fyrir miðlun þekkingar til stjórnvalda og almennings auk árangurs í vísindum.

Texti

Að námi loknu hóf Páll störf við Raunvísindastofnun Háskólans og snerist starf hans þar einkum um að setja upp og reka net jarðskjálftamæla um landið, svokallað Landsnet skjálftamæla. Það var notað til eftirlits með umbrotum á landinu þar til fullkomnara stafrænt skjálftamælanet tók við eftir 1990. Páll gegndi stöðu prófessors í jarðeðlisfræði 1994-1997 og aftur frá 1999 þar til hann fór á eftirlaun 2017. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mynd
Image

Merkur vísindamaður

Páll Einarsson er prófessor emeritus við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og hefur rannsóknaraðstöðu við Jarðvísindastofnun Háskólans. Rannsóknir hans á sviði jarðvísinda fjalla um jarðskorpuhreyfingar, jarðskjálfta, eðlisfræði eldgosa og kvikuhreyfinga, innri gerð eldstöðva og gerð jarðskorpunnar í heild. 

Á Vísindavef HÍ kemur fram að í greinum sínum hafi hann meðal annars fjallað um jarðskjálfta og flekahreyfingar á Íslandi, jarðskjálfta á Atlantshafshryggnum, Kröfluumbrotin, eldgos í Heklu, kvikuhólf Kröflu, gerð jarðskorpunnar undir Heklu og Eyjafjallajökli, upptakamisgengi skjálfta á Suðurlandsundirlendi, umbrotin í Eyjafjallajökli 1994-2010, umbrotin í Bárðarbungu 1996-2015, eldstöðvakerfi undir Vatnajökli, Grímsvatnagos, skjálftavirkni Kötlu, sprungusveima íslenskra eldstöðvakerfa og margt fleira. Mörg þessara viðfangsefna eru unnin í samvinnu stórra vinnuhópa vísindamanna, bæði innlendra og erlendra.

Sýndi áhuga strax í barnaskóla á náttúruvísindum

Páll Einarsson fæddist árið 1947 í Reykjavík og stundaði hefðbundið nám í Melaskóla en þar sýndi hann strax mikinn áhuga á náttúruvísindum. Skeljasafn sem hann gerði tólf ára gamall hefur hangið þar uppi allar götur frá 1963. Páll fór svo yfir götuna ef svo má segja í Hagaskóla og lauk svo stúdentsprófi frá MR. Hann tók síðan fyrrihlutapróf í eðlisfræði í Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi 1970. Þaðan lá leiðin til Columbia-háskóla í New York en þar tók hann MPhil-próf 1974 og doktorspróf árið 1975. 

Að námi loknu hóf hann störf við Raunvísindastofnun Háskólans og snerist starf hans þar einkum um að setja upp og reka net jarðskjálftamæla um landið, svokallað Landsnet skjálftamæla. Það var notað til eftirlits með umbrotum á landinu þar til fullkomnara stafrænt skjálftamælanet tók við eftir 1990. Páll gegndi stöðu prófessors í jarðeðlisfræði 1994-1997 og aftur frá 1999 þar til hann fór á eftirlaun 2017.

Páll Einarsson er jafnframt tónlistarmaður. Hann var við tónlistarnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík á yngri árum og er mjög liðtækur kontrabassa- og sellóleikari. Hann hefur um árabil verið formaður Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna og leiðir sellósveitina.
 
Páll mun taka við Rossby-verðlaunum við hátíðlega athöfn í Beijersalen í Konunglegu sænsku vísindaakademíunni þann 17. janúar á næsta ári.

Texti

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, hlýtur hin þekktu sænsku Rossby-verðlaun í jarðeðlisfræði. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mynd
Image
Páll Einarsson