
Michelle Parks1, Freysteinn Sigmundsson2, Sara Barsotti1, Halldór Geirsson2, Kristín S. Vogfjörð1, Benedikt Ófeigsson1, Páll Einarsson2
1 Veðurstofa Íslands.
2 Norræna eldfjallasetrið, Jarðvísindastofnun og Jarðvísindadeild, Háskóli Íslands
Yfirlit og bakgrunnur
Umbrotatímabil byrjaði á Reykjanesskaganum í desember 2019, með jarðskjálftavirkni, neðanjarðar kvikuhreyfingum og eldgosum. Á Fagradalsfjallssvæðinu hafa orðið 4 gangainnskot og 3 eldgos, og einnig 4 gangainnskot og 3 eldgos í eldstöðvakerfi Svartsengis, á svæðinu í og við gígaröðina sem er kennd við Sundhnúk og nær undir Grindavík (mynd 1).
Umbrotatímabilið byrjaði árið 2019 með jarðskjálftavirkni á Fagradalsfjallssvæðinu, á um 3-7 km dýpi. Tímasetningin var ekki óvænt í ljósi vitneskju um fyrri umbrotatímabil, þar sem meðalhlé á milli eldgosatímabila er um 800-1000 ár. Síðasta virknitímabil, Reykjaneseldar, varði frá um 950 til 1240. Fyrstu skýru merkin um kvikuhreyfingar á Reykjanesskagnaum í yfirstandandi umbrotahrinu komu 21. janúar 2020: aukin jarðskjálftavirkni og aflögun jarðskorpunnar markaði fyrsta tímabil landriss á Svartsengissvæðinu. Slík ristímabil stafa af þrýstiaukningu í jarðskorpunni, hér túlkað sem afleiðing af kvikusöfnun. Myndun kvikugangs (gangainnskot) og eldgos áttu sér þó fyrst stað við Fagradalsfjall. Á tímabilinu frá febrúar 2021 til ágúst 2023 urðu þar 4 gangainnskot og 3 eldgos (mynd 1). Mælingar á jarðskjálftum og jarðskorpuhreyfingum hafa gefið lykilupplýsingar til að meta eðli umbrotanna og þá hættu sem af þeim stafar.
Fyrsta gangainnskotið við Fagradalsfjall, frá 24. febrúar til 19. mars 2021, var stærst þeirra 4 gangainnskota sem þar hafa orðið til þessa. Þegar eldgos hófst lauk myndun kvikugangsins að mestu. Rannsóknir á jarðskorpuhreyfingum tengdum þessum kvikugangi voru birtar í tímaritsgrein Freysteins Sigmundssonar o.fl. (2022). Áætlað kvikuflæði inn í ganginn var 30-35 m3/s í upphafi, en minnkaði niður fyrir 10 m3/s áður en eldgosið hófst. Mælingar okkar og úrvinnsla hafa sýnt mikla fylgni milli áætlaðs kvikustreymis inn í kvikugang skömmu áður en að eldgos brýst út, og kvikustreymis í upphafi eldgosa, sem er mjög mikilvægt til að meta hættur tengdar hraunflæði.
Á eftir upphaflega ristímabilinu á Svartsengissvæðinu urðu þar 4 önnur ristímabil (tvö árið 2020 í mars-apríl og maí-júlí, eitt í maí-júní 2022 og loks frá 27. október til 10. nóvember 2023). Kvikusöfnun á síðasta tímbilinu byggði upp nægjanlegan þrýsting til að hleypa af stað kvikuganginum mikla þann 10. nóvember 2023 undir Sundhnúksgígaröðinni og Grindavík (mynd 2; Freysteinn Sigmundsson o.fl., 2024).