Titill
Vísindamenn HÍ þróa aðferðir til að vinna verðmæt efni úr jarðhitavatni

Texti

Vísindamenn við Háskóla Íslands eru meðal þátttakenda í viðamiklu alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem miðar að því að þróa aðferðir til að vinna ýmis efni, sem m.a. eru nýtt í raftæki og hátæknibúnað, úr jarðhitavatni. Hingað til hefur verið litið á þessi efni sem úrgang en með þessu á að stuðla að sjálfbærari og umhverfisvænni nýtingu jarðhita. Verkefnið er það fyrsta innan Háskóla Íslands sem hlýtur styrk úr nýrri rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizion Europe.

Verkefnið ber heitið Critical' Raw Materials (CRM) eða Lykilhráefni jarðar og að því koma 20 aðilar, bæði háskólar, stofnanir og fyrirtæki frá 10 löndum í Evrópu ásamt einum aðila frá Afríku. Þýska jarðvísindarannsóknastofnunin (GFZ) í Potsdam leiðir verkefnið en hér á landi hefur Andri Stefánsson, prófessor í jarðefnafræði við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, forystu um verkefnið.

Mynd
Image
Andri Stefánsson

Til mikils er að vinna í verkefninu því stærstur hluti námuvinnslu fer nú fram á óumhverfisvænan hátt og oft við óboðlegar aðstæður í þróunarríkjum.„Jarðhitakerfi eru í raun efnanámur í myndun og jarðhitavökvinn sem við nýtum, m.a. til húshitunar og rafmagnsframleiðslu, er oft auðugur af jarðefnum sem nýst geta í nútímatækni og -iðnaði,“ segir Andri. Þetta eru efni eins og liþíum sem við notum í rafhlöður, lyf og glervöru, gull sem við nýtum í ýmis raftæki og hátæknibúnað, að ógleymdum skartgripum, og vetni sem er einn af framtíðarorkugjöfunum. Efnin eru hins vegar ekki nýtt nema í undantekningartilvikum í tengslum við jarðhitavinnslu.

Verkefnið snýr að því að skilgreina þessa auðlind og verðmæti hennar fyrir mismunandi jarðhitakerfi í Evrópu og annars staðar, öðlast betri skilning á auðlindinni og hringrás hennar í jarðhitakerfum þannig að hægt sé að nýta hana á hagkvæman og sjálfbæran hátt, þróa aðferðir til að vinna ýmis efni úr jarðhitavökvanum sem gætu orðið hluti af almennri jarðhitavinnslu og meta hugsanleg samfélagsleg og efnahagsleg áhrif slíkrar „nútíma“ námuvinnslu. Það má því segja að verkefnið snúist um að búa til auðlind og verðmæti úr jarðhitaúrgangi og í raun fjölnýta jarðhitann.

CRM-verkefnið er þverfræðilegt þar sem saman koma sérfræðingar á sviði efna-, verk- og jarðfræði, félagvísinda og hagvísinda. Verkefni vísindamanna HÍ er að skilgreina vinnanleg efni í jarðhitaauðlindum um gervalla Evrópu og greina hegðun efnanna í jarðhitakerfunum og í tengslum við jarðhitanýtingu, en eins og kunnugt er hafa Íslendingar áratugareynslu af rannsóknum og nýtingu jarðhita. 

Fyrsti styrkurinn sem vísindamenn HÍ fá úr Horizon Europe

Verkefnið hefur hlotið 7,5 milljónir evra, jafnvirði nærri 1,1 milljarða króna, í styrk úr Horizon Europe, nýrri rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Hún tók við af Horizon 2020 áætluninni í fyrra en þess má geta að vísindamenn og stofnanir Háskóla Íslands hlutu samanlagt nærri fjóra milljarða króna í styrki úr Horizon 2020 sem skapaði fjölmörg ný störf í vísindum og nýsköpun.

Styrkurinn er sá fyrsti sem vísindamenn Háskólans fá úr Horizon Europe en Evrópusambandið hyggst úthluta samanlagt um 95 milljörðum evra úr áætluninni á næstu sjö árum. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem snerta helstu áskoranir evrópskra samfélaga, svo sem á sviði heilbrigðis-, umhverfis- og orkumála.

„Græn framtíðarsýn Evrópu grundvallast á orkuskiptum og kolefnishlutleysi og á sama tíma á að byggja upp sjálfbært og alþjóðlega samkeppnishæft hagkerfi og iðnað. Ein af grunnstoðunum fyrir slíkri þróun er óhindrað aðgengi að ýmsum jarðefnum. Sýn og tilgangur verkefnisins miðast einmitt að stíga framtíðarskref í átt að vinnslu og aðgeng að slíkum lykilhráfefnum jarðar, ekki með aukinni námuvinnslu í Evrópu eða annars staðar eins og við vinnum þessi efni í dag heldur að vinna efnin úr jarðhitavökva á nýjan, hagnýtan og sjálfbæran hátt,“ segir Andri.