Rannsóknasjóður Íslands er samkeppnissjóður hýstur hjá Rannís og styrkir verkefni á öllum sviðum vísinda, jafnt doktorsverkefni sem öndvegisverkefni en það eru rannsóknarverkefni sem eru líkleg til að skila íslenskum rannsóknum í fremstu röð á alþjóðavettvangi.

Vísindamenn og doktorsnemar við HÍ koma að á sjöunda tug rannsóknarverkefna sem hlutu styrk úr Rannsóknasjóði Íslands fyrir árið 2023. Þar á meðal eru fjórir öndvegisstyrkir sem eru hæstu styrkir sem veittir eru hér á landi til vísinda. Tilkynnt var um styrkveitingar úr sjóðnum föstudaginn 27. janúar.

Einn af þessu fjórum öndvegisstykjum var veittur Freysteini Sigmundssyni, vísindamanni við Raunvísindastofnun Háskólans, og Michelle Maree Parks, jarðeðlisfræðingi hjá Veðurstofu Íslands, en þau hlutu styrk til verkefnisins „Áhrif hopandi jökla í kjölfar loftslagsbreytinga á jarðskjálfta og eldvirkni“.

Samanlagt eru styrkir til vísindamanna og doktorsnema við HÍ og tengdar stofnanir 63 talsins og má sjá yfirlit yfir allar styrktar rannsóknir á vef Rannís.