Image
geldingadalir-grof_2021-03-29

Mælingar á hrauninu í Geldingadölum

Stærð

Besta leiðin til að meta stærð gossins í Geldingadölum er að kortleggja hraunið og reikna rúmmál þess á hverjum tíma.  Þannig fæst meðalhraunrennsli milli mælinga.  Rúmmál hraunsins á hverjum tíma og hraunrennsli eru sýnd á meðfylgjandi línuritum auk þess sem sýndar eru niðurstöður efnagreininga á kvikunni. 

Jarðefnafræði

Heildarberg-efnagreiningar hafa verið gerðar með ICP-OES (Inductively Coupled Plasma – Optical Emission Spectroscopy ) tæki Jarðvísindastofnunar.  Þær eru gerðar á hraunsýnum teknum með reglulegu millibili. Í þessari aðferð er LiBO2 flúx bætt við mulin bergsýni, bræðslumark þeirra lækkar í kjölfarið og þau því auðbrædd við 1000°C. Bráðin myndar gler við hraða kælingu.  Glerið er leyst upp í sýrublöndu en sú blanda er síðan mæld beint. Þessi aðferð er notuð til að greina öll aðalefni bergsins ásamt nokkrum snefilefnum.

Línuritið sýnir þungaprósentu (wt.%) magnesíumoxíðs (MgO) og títanoxíðs (TiO2) í kvikunni.  Mikilvægt er að fylgjast með þróun kvikunnar með tíma og verða þessar mælingar gerðar reglulega meðan gosið varir, á svipaðan hátt og mælingar á rúmmáli og reikningar á hraunrennslinu.

Fram til þessa, hafa ekki komið fram neinar breytingar í efnasamsetningu heildar-bergsýna en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, benda þessar mælingar til þess að gangurinn dragi kviku frá djúpum kvikugeymi sem líklega liggur nærri mörkum skorpu og möttuls undir Reykjanesskaga.

Ýtarlegri skýrslu með aðalefnasamsetningu bergs og steinda má finna hér:

http://jardvis.hi.is/lysing_bergsynum_sem_safnad_var_fyrstu_tveimur_dogu...

Hraunrennsli í samanburði við önnur gos

Hraunrennslið er lítið í samanburði við flest önnur gos, en ákaflega stöðugt.  Það er um einn þriðji þess sem kom að meðaltali kom upp fyrstu 10 dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos.  Þá er rennslið í Geldingadölum aðeins 2% af því sem var í Holuhrauni fyrstu vikur gossins.  Rennslið er svipað og var að meðaltali í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.

Ekki er hægt að segja um nú hve lengi gosið muni standa, en þróun hraunrennslis með tíma mun gefa vísbendingar þegar fram í sækir. 

Um kortlagningu hraunsins:

Fjórar mismunandi aðferðir hafa verið notaðar til að kortleggja hraunið:

  1. Myndir teknar lóðrétt niður á hraunið og síðan unnið landlíkan úr myndunum. 
  2. Mælingar úr Pléiades gervitungli frönsku geimvísindastofnunarinnar.  Tunglið fer yfir a.m.k. einu sinni á dag en nær ekki myndum ef skýjahula þekur svæðið.
  3. Mælingar úr mælingflugvél Ísavia, TF-FMS, en hún er búin kerfi sem tengir saman GPS og flughæðarmæli.  Kerfið er hugsað fyrir mælingar á yfirborði jökla en getur nýst í verkefni eins og þetta.
  4. Ein mæling var gerð laugardaginn 20. mars með nákæmum leysiskanna (Reigl) sem er m.a. notaður til að kortleggja snjóflóðahlíðar, skriður o.s.frv.

Rúmmál hraunins er fengið með því að draga eitt landlíkan frá öðru. Hæðir eru skorðaðar út frá mælingum sem gerðar voru 7. mars og þekja stórt svæði í og við Fagradalsfjall.  Þessar mælingar eru festar við nýlegt nákvæmt landlíkan sem unnið hefur verið af öllu landinu (ÍslandsDEM, sjá vef Landmælinga Íslands).  Nákvæmni landlíkana er á bilinu 0,2-1.0 m í hæð, mest er nákvæmnin í lóðréttum myndum sem teknar eru með Hasselblad myndavél Náttúrufræðistofnunar og gervitunglakortum frá Pléiades.  Samræmi milli mismunandi aðferða er góð.

Vinna við mælingar og úrvinnslu

Kortlagning hraunsins er samstarfsverkefni margra aðila:  Hér á landi eru það Jarðvísindastofnun Háskólans, Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofan, Ísavia og Almannavarnar auk þess sem Landsvirkjun tók þátt í mælingunni með leysiskannanum.  Myndir hafa verið teknar úr TF-KLO frá Flugfélagi Austurlands og þyrlu Landhelgisgæslunnar.  Franskt samstarfsfólk kemur líka að málinu því aðgangur að Pléiades gervitunglinu hefur fengist gegnum CIEST2, franskt rannsóknaverkefni.  Að vinnunni kemur allstór hópur sérfræðinga á stofnunum, tæknifólk á tilraunastofum og nýdoktorar við Jarðvísindastofnun.

Texti: Magnús Tumi Guðmundsson, Sæmundur Ari Halldórsson og Joaquin M. Belart